Körfubolti

Gætu allt eins hent peningum út um gluggan eins og að fá Darrel Lewis aftur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fram kom í Domino´s-Körfuboltakvöldi á mánudagskvöldið að Þór Akureyri er að reyna að safna pening og gera allt hvað það getur til að fá Darrel Lewis aftur til liðsins.

Sá 41 árs gamli reynslubolti spilaði með Þór á síðustu leiktíð og skoraði þá 18 stig, tók átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar að meðaltali í leik er nýliðarnir komust í úrslitakeppnina á fyrsta ári eftir endurkomuna í deild þeirra bestu.

Þórsarar misstu mikið af mönnum í sumar, þar á meðal Lewis, og eru nú í fallbaráttu í deildinni. Þeir töpuðu mikilvægum fallbaráttuslag á móti Val í síðustu umferð og eru tveimur stigum frá öruggu sæti þegar að mótið er að verða hálfnað.

Því finnst vafalítið mörgum eðlilegt að Þórsarar séu að reyna að fá Lewis aftur sem hefur verið einn af betri leikmönnum deildarinnar um langa hríð en hann er ekki maðurinn sem getur bjargað Þór, að mati sérfræðinga Körfuboltakvölds.

Darrel Lewis í leik með Þór í fyrra.vísir/ernir
„Hann er ekki leikmaðurinn sem gerir það að verkum að þeir falli ekki,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson um Þórsliðið sem er að byggja á ungum mönnum.

„Hvað ætlar Þórsliðið að gera? Ætlar það ekki að reyna að byggja liðið upp á þessum strákum fæddum 2000 og 2001 sem eru búnir að vera að gera svo ótrúlega flott mót undanfarin ár í sínum árgangi?“

Mikilvægt er fyrir liðin að halda sér uppi á þessari leiktíð því mikil breyting verður fyrir næsta tímabil þegar að liðin mega vera með ótakmarkaðan fjölda svokallaðra Bosman-leikmanna. Þá verður töluvert auðveldara fyrir liðin úti á landi að manna sig

„Hann hægir á öllum sóknum og öll kerfi fara til fjandas. Hann dúllar sér á kantinum og gerir það sem hann gerir. Ég myndi sleppa því að taka hann.,“ sagði Kristinn Friðriksson og Jón Halldór bætti við:

„Þeir eru að henda peningum út um gluggann ef þeir fá Lewis. Það er mín skoðun. Ég held að hann sé ekki sá aðili sem gerir það að verkum að þeir vinni þessa leiki sem þarf til.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×