Skoðun

Þarna fór Isavia yfir strikið

Kári Jónasson skrifar
Eiginlega er ríkisfyrirtækið Isavia ríki í ríkinu og lifir sjálfstæðu lífi utan allra siðferðilegra marka að manni finnst. Síðasta útspil fyrirtækisins sem hljóðar upp á að taka tæplega 20 þúsund krónur fyrir að leyfa rútu að hafa viðdvöl við flugstöðina í kannski eina klukkustund, eða lengur eða skemur.

Það er eitt að taka sanngjarnt gjald fyrir bílastæði eins og ég hef reyndar alloft bent á í opinberri umræðu, eða að skella þessu gjaldi á svo til fyrirvaralaust. Það er eins og menn skilji aldrei að gjöld og álögur á ferðaþjónustuna verður að tilkynna með minnst eins til eins og hálfs árs fyrirvara – þetta er ekki bara eins og þegar kaupmaðurinn hækkar verðið á kjötfarsinu eftir helgi og enginn tekur eftir því . Í ferðaþjónustunni gilda allt önnur lögmál, eins og forráðamenn Isavia ættu að vita. Þetta rútubílastæðagjald virðist vera lagt á til að standa undir einhverri annarri starfsemi við flugstöðina en bílastæðum fyrir rútur. Þá er það spurning hvers vegna rútufyrirtækin og þar með rútufarþegar eigi að standa undir annarri starfsemi á staðnum.

Stjórnendur fyrirtækisins segjast vera í samkeppni við aðra flugvelli, en það er svolítið skondið að það sé mun ódýrara að hafa stóra þotu á flugvélastæðinu í sex tíma en nokkrar rútur í skamman tíma á rútustæðinu. Þetta sýnir kannski fáránleikann í málinu. Sum stóru rútufyrirtækin hafa sagt að þau verði að greiða hátt í hálfa milljón á dag fyrir að sækja farþega á völlinn. Lítið fyrirtæki sem ég vinn svolítið fyrir sýnist mér að þurfi að greiða næstum fjórar milljónir næsta sumar.

Isavia , skilst mér, heyrir undir tvo ráðherra; þ.e. fjármálaráðherra sem fer með hlutaféð og svo samgönguráðherra. Líklega kemur ferðamálaráðherrann þarna líka við sögu beint eða óbeint. Þessir þrír ráðherrar hljóta að láta til sín taka varðandi þetta mál – annað er óhugsandi.

Að lokum: Það er sjálfsagt að greiða fyrir bílastæðin, en ekki þessa ótrúlegu upphæð.

 

Höfundur er leiðsögumaður og fyrrverandi fréttamaður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×