Fótbolti

Leikmenn Spartak hefðu betur stundað smá bólfimi fyrir leikinn í gær

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Quincy Promes, leikmaður Spartak, og Victoria Gameeva, læknir liðsins.
Quincy Promes, leikmaður Spartak, og Victoria Gameeva, læknir liðsins. mynd/instagram
Spartak Moskva gerði heiðarlega tilraun til að komast í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi en til þess þurfti það að vinna Liverpool á Anfield.

Skemmst er frá því að segja að það tókst ekki, eins og flestir vita, en lærisveinar Jürgens Klopps fóru gjörsamlega hamförum og unnu leikinn, 7-0. Dagskrá var í raun lokið eftir 19 mínútur þegar að staðan var orðin 3-0.

Spartak notaði öll brögðin í bókinni til að undirbúa sig sem best fyrir leikinn, en leik menn liðsins máttu til dæmis ekki stunda kynlíf fyrir leik í gær.

Victoria Gameeva, læknir Spartak-liðsins, bannaði alla bólfimi áður en þessi mikilvægi leikur hófst, en í viðtali við rússneska sjónvarpsstöð sagði hún:

„Frá læknisfræðilegu sjónarmiði virkar sú örvun að stunda kynlíf fyrir kappleik aðeins á konur. Í blönduðum bardagalistum gæti kona stundað kynlíf fimm til tíu mínútum fyrir bardaga og náð betri úrslitum. Þetta virkar öfugt á karlmenn. Þeir ættu að forðast kynlíf tveimur til þremur dögum fyrir fótboltaleiki.“

Það efast enginn um orð læknisins enda hefur þetta margsinnis verið rannsakað og hefur Ronda Rousey, UFC-stjarna, oft talað um að hún stundar mikið kynlíf áður en hún fer inn í hringinn.

Þetta virkaði þó sannarlega ekki fyrir leikmenn Spartak í gær og spurning hvort þeir hefðu átt að láta ráð Gameevu sem vind um eyru þjóta fyrir þennan leik þar sem þeir fengu vænan rassskell.


Tengdar fréttir

Keane: Liverpool ekki unnið neinn enn þá

Eftir stórsigur Liverpool á Spartak Moskvu í gærkvöld keppast menn við að hrósa Jurgen Klopp og hans mönnum fyrir frammistöðu sína. Einn maður er þó ekki á þeim vagninum, en Roy Keane sagði Liverpool ekki hafa unnið neinn enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×