Körfubolti

Jóhann: Ég er með skítinn í buxunum útaf þessu

Jóhann Þór ræðir við sína menn.
Jóhann Þór ræðir við sína menn. vísir/ernir
„Við vorum vandræðalega slakir í fyrri hálfleik. Við höfum ekki náð takti varnarlega í vetur og ég myndi segja að við höfum náð ákveðnum botni í fyrri hálfleik. Það vantar þessi grunnígildi sem þurfa að vera í góðri liðsvörn, það var skárra í seinni. Þetta var ljótur sigur og við áttum þetta ekki skilið,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir eins stig sigur á Val í Grindavík í kvöld.

Sigurkarfa Grindvíkinga skoraði Dagur Kár Jónsson þegar 0,44 sekúndur voru eftir á klukkunni en þá höfðu Grindvíkingar ekki verið yfir síðan í 2.leikhluta.

„Við tökum þetta auðvitað og það er einn leikur eftir fyrir jól. Ég hef sagt í viðtölum að ég hafi ekki áhyggjur af þessu en ég er með skítinn í buxunum yfir þessu, það verður bara að viðurkennast.“

Valsliðið spilaði afar grimmt á heimamenn og börðust eins og ljón allan leikinn.

„Valsliðið er hörkugott, mjög vel þjálfað og til fyrirmyndar hvernig þeir nálgast sinn leik. Mínir menn geta tekið sér þetta til fyrirmyndar. Hver einasti maður hjá þeim er á fullu allan tímann og hefur fulla trú á skipulaginu. Það er aðdáunarvert að fylgjast með þessu, bætti Jóhann við og sagði að aðaláherslan fyrir leikinn gegn Þór Akureyri yrði að laga varnarleikinn.

„Við erum með allt lóðrétt, eða allt lóðbeint „Team Fannar Ólafs“ niður um okkur,“ sagði Jóhann um varnarleikinn og vitnaði þér í Fannar Ólafsson sérfræðing í Dominos körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport.

„Síðan í nóvember hefur þetta verið svona og það hefur lítið gengið. Við þurfum að finna einhverjar aðrar leiðir. Það er klárt,“ sagði Jóhann Þór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×