Fótbolti

Enska upprisan í Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool endaði riðlakeppnina á 7-0 sigri.
Liverpool endaði riðlakeppnina á 7-0 sigri. Vísir/Getty
Fimm lið frá Englandi verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á mánudaginn.

Manchester-liðin City og United, Liverpool, Tottenham og Chelsea eru öll komin í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Fjögur fyrstnefndu liðin unnu sinn riðil en Chelsea lenti í 2. sæti C-riðils á eftir Roma.

Þetta er í fyrsta sinn sem fimm lið frá sama landinu komast í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Raunar er þetta bara í annað sinn sem fimm lið frá sama landi taka þátt í riðlakeppninni. Spánn átti einnig fimm fulltrúa á þarsíðasta tímabili.





Gengi ensku liðanna í Meistaradeildinni undanfarin ár hefur ekki verið merkilegt. Fimm ár eru síðan lið frá Englandi (Chelsea) varð Evrópumeistari og síðan þá hafa aðeins tvö ensk lið, Chelsea 2014 og Man­chester City 2016, komist í undan­úrslit keppninnar.

Á síðasta tímabili hélt Leicester City uppi heiðri ensku liðanna með því að komast í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. City og Arsenal féllu út í 16-liða úrslitum en Tottenham komst ekki upp úr sínum riðli. Þrír af fimm fulltrúum Englands í Meistaradeildinni í ár voru ekki einu sinni með á síðasta tímabili.

Ensku liðin töpuðu aðeins þremur af 30 leikjum sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár. Þar af tapaði City fyrir Shakhtar Donetsk í þýðingarlausum leik fyrir Man­chester-liðið í fyrradag. Ensku liðin voru með 70% vinningshlutfall í riðlakeppninni í ár. Til samanburðar var vinningshlutfall spænsku liðanna 45,8%, ítölsku liðanna 44,4% og þeirra þýsku 38,8%.



Tottenham, sem komst ekki upp úr sínum riðli í fyrra, fékk flest stig allra liða í riðlakeppninni, eða 16 talsins. Spurs var í riðli með Evrópumeisturum Real Madrid og Borussia Dortmund svo árangur Lundúna­liðsins er framúrskarandi.

Ensku liðin skoruðu alls 80 mörk í riðlakeppninni. Liverpool var markahæsta enska liðið með 23 mörk. Aðeins Paris Saint-Germain skoraði meira (25 mörk). Liverpool skoraði tvisvar sinnum sjö mörk í leik; gegn Maribor á útivelli og gegn Spartak Moskvu á heimavelli í fyrradag.

Þetta enska haust gleymist samt fljótt ef árangurinn í útsláttarkeppninni næsta vor verður ekki góður. Það getur margt breyst á þeim rúmu þremur mánuðum sem eru þar til 16-liða úrslitin hefjast. En frammistaðan í riðlakeppninni gefur allavega góð fyrirheit.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×