Innlent

Engin niðurstaða af sáttafundi flugvirkja: Telja sig eiga inni launaleiðréttingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Boðað hefur verið til annars fundar hjá Ríkissáttasemjara klukkan eitt á mánudag.
Boðað hefur verið til annars fundar hjá Ríkissáttasemjara klukkan eitt á mánudag. Vísir/Vilhelm
Ellefta sáttafundi í kjaradeilu flugvirkja hjá flugfélaginu Icelandair lauk án niðurstöðu klukkan fimm í dag. Boðað hefur verið til annars fundar hjá Ríkissáttasemjara klukkan eitt á mánudag.

Félagar í Flugvirkjafélagi Íslands sem starfa hjá Icelandair hafa boðað til ótímabundins verkfalls frá klukkan 06:00 17. desember næstkomandi takist ekki að semja fyrir þann tíma.

Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir í samtali við Vísi að á fundinum í dag hafi verið rætt um þau atriði sem áður hefur verið rætt á fundi með sáttasemjara og ekkert nýtt komið fram. Engin niðurstaða hafi því verið af fundinum önnur en að boða til annars fundar á mánudag.

Fundurinn í dag var sá fyrsti eftir að boðað var til verkfalls aðgerða en áður hafði verið fundað tíu sinnum með ríkissáttasemjara.

Óskar segir við Vísi að deilan snúist um launaleiðréttingu sem flugvirkjar telja sig eiga inni. Hann vildi ekki gefa upp hve háar kröfurnar eru.

Verði af verkfallinu mun það hafa í för með sér mikla röskun á flugi, samkvæmt tilkynningu sem Icelandair sendi til Kauphallarinnar í gær. Deilu flugvirkja og Icelandair var vísað til sáttasemjara 8. september en á borði sáttasemjara er einnig deila Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair og deila flugvirkja og Air Atlanta Icelandic




Fleiri fréttir

Sjá meira


×