Umfjöllun og viðtöl: KR - Haukar 66-81 | Haukar skelltu KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kári Jónsson var flottur í kvöld.
Kári Jónsson var flottur í kvöld. vísir/ernir
Haukar unnu glæsilegan sigur á KR í DHL-höllinni í kvöd, en Haukarnir leiddu frá því í fyrsta leikhluta. Mjög flottur leikur hjá þeim rauðklæddu, en að endingu varð munurinn fimmtán stig, 81-66.

Haukarnir byrjuðu af krafti og spiluðu virkilega vel í fyrri hálfleik. KR-ingar fundu fá svör gegn gífurlega sterkum varnarleik Hauka, en á hinum endanum fór allt ofan í hjá Haukunum.

Þeir leiddu sex stigum eftir fyrsta leikhlutann, 22-16, og sami kraftur var í KR í upphafi annars leikhluta. Þeir náðu mest 17 stiga forskoti, 35-18, en þá vöknuðu heimamenn loks til lífsins.

KR byrjaði að spila betri vörn og Haukarnir fengu ekki þessi auðveldu skot sem þeir höfðu fengið framan af leik. Leikur Hauka var stirðari fyrir vikið og KR náði að keyra upp hraðann. Haukarnir leiddu þó enn með sjö stigum í hálfleik, 41-34.

Haukarnir héldu forystunni í þriðjum leikhluta, en heimamenn úr Vesturbænum voru aldrei langt undan. Þegar þriðja leikhluta lauk var munurinn sex stig, 61-55 og ljóst að athyglisverður fjórði leikhluti var framundan.

Gestirnir úr Hafnarfirði héldu forskotinu í fjórða leikhluta þrátt fyrir ógnir heimamanna og unnu að lokum gífurlega sterkan sigur, 81-66. Afar mikilvægur sigur Hauka sem heldur áfram að klífa töfluna á meðan Vesturbæjarrisinn er í vandræðum.  

Afhverju unnu Haukar?

Rosalega góð spilamennska, á flestum ef ekki öllum vígstöðvum körfuboltans. Margir voru að leggja í púkkinn og ekki bara að leggja smá inn heldur með stór framlög. KR-liðið var ólíkt sjálfum sér, lengstum af og Haukarnir spiluðu á þá gífurlega sterka vörn. Það er fátítt að KR skori einungis 66 stig og hvað þá á heimavelli. Rosalegur varnarleikur.

Þessir stóðu upp úr

Kári Jónsson var eins og í flestum leikjum sem hann spilar á Íslandi, algjörlega frábær. Hann dró Haukavagninn áfram og það gleymist stundum að pilturinn er bara 20 ára gamall. Finnur Atli átti einnig góðan leik á gamla heimavellinum; skilaði 12 stigum og nóg af fráköstum. Haukur og Paul einnig með gott framlag, svo mætti lengi telja.

Hjá KR var Jalen Jenkins einu sinni sem oftar stigahæstur, en framlag frá öðrum leikmönnum var ekki mikið. Það var sér í lagi Björn (13 stig) sem var að spila ágætlega, en lykilmenn á borð við Darra og Brynjar Þór hafa oft spilað betur.

Áhugaverð tölfræði

Ég verð einfaldlega að skila inn auðu í þessum dálki. Tölfræðin fór algjörlega til fjandans í fyrri hálfleik og lítið sem ekkert gekk að ná henni til baka. Spurning hvort að vefsíðu-eyðileggingar-faraldurinn hafi náð tökum á kerfinu í Vesturbænum í kvöld. Ég segi pass!

Hvað gerist næst?

Það er risa leikur hjá KR strax á sunnudaginn þegar liðið fer í Keflavík og mætir þar frábæru liði Keflavíkur sem hefur verið að sýna flotta taka á þessu tímabili. Þarf þarf KR að sýna betri leik en í kvöd. Sama dag fá Haukarnir spræka Njarðvíkinga í heimsókn og þurfa Haukarnir að halda uppteknum hætti þar eins og þeir gerðu í kvöld - sýna stöðugleika.

Haukarnir fagna.vísir/ernir
Ívar: Ef eitthvað er þá er liðið betra

„Mér fannst frammistaðan heilt yfir ágæt. Mér fannst við samt alveg geta meira, sérstaklega í fyrri hálfleik,” sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka í kvöld.

„Það vantaði aðeins kraft í okkur, en við vorum að hitta vel og það var það sem skóp forystuna í fyrri hálfleik. Mér fannst vanta kraft, en krafturinn í þriðja og fjórða var frábær.”

Í fyrri hálfleik voru Haukarnir dálítið að rétta KR boltann í stað þess að stinga KR-inga almennilega af.

„Okkur vantaði aðeins að klára leikinn vel. Við urðum kærulausir stundum og vorum ekki að gera það sem gekk vel. Um leið og við náðum forystu þá vorum við of seinir að setja upp.”

„Heilt yfir er þetta bara flottur sigur og algjör liðssigur þar sem allir eru að skila frábærri vinnu. Við erum að fá stórkostlegt framlag frá bekknum.”

Það eru ekki mörg lið sem koma í DHL-höllina og halda KR í 66 stigum eins og Haukarnir gerðu í kvöld. Varnarleikurinn var frábær.

„Varnarleikurinn var frábær og stóru mennirnir okkar í teignum voru stórkostlegir. Þeir stoppuðu allt. Ég held ég hafi ekki séð annað eins og varnarleikinn hjá Hjálmari. Hann var rosalegur.”

Ívar hefur verið erlendis með kvennalandsliðinu og kann aðstoðarmönnum sínum miklar þakkir fyrir frammistöðu þeirra síðustu daga og vikur, en Vilhjálmur Steinarsson og Steinar Aronsson eru aðstoðarmenn Ívars.

„Ég vil hrósa aðstoðarmönnum mínum meðan ég var úti. Þeir hafa verið að sinna þessu, Vilhjálmur og Steinar, og hafa gert það frábærlega. Ef eitthvað er þá er liðið betra. Ég vil koma hrósi á þá tvo,” sagði Ívar þakklátur sínum mönnum í leikslok.

Finnur á línunni í kvöld.vísir/ernir
Finnur: Erum algjörlega taktlausir

„Þetta var dapurt. Alltof mikið af löngum slæmum köflum og það voru fáir góðar kaflar inn á milli,” sagði vonsvikinn Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, í leikslok.

„Haukarnir voru töluvert betri í dag. Við náum þessu niður í fjögur stig, fáum allt í lagi skot og góða möguleika, en við vorum ekki nógu skynsamir til að klára þetta.”

„Varnarleikurinn var oft á tíðum slakur. Mér fannst við gefa sóknarfráköst og galopin skot trekk í trekk. Við hleypum Hauki einnig í gang og við gefum alltof mikið af auðveldum körfum.”

„Það er fátt sem fer meira í taugarnar á þjálfurum en þannig körfur,” en KR skoraði einungis 66 stig. Menn á pöllunum höfðu ekki séð annað eins lengi:

„Við vorum bara slakir. Það er ekkert hægt að tala öðruvísi um það. Þau skipti sem við náðum að skapa okkur eitthvað þá náðum við ekki að klára þau. Við erum ekki sama sóknarlið og við höfum verið undanfarin ár.”

„Við eigum mikið inni þar og varnarlega þurfum við að vera til staðar. 81 stig hljómar ágætlega, en þessir kaflar sem við náðum ekki að stoppa voru alltof margir. Á sama tíma náum við ekki að setja boltann í körfuna þegar við þurftum á því að halda.”

Þetta var þriðji tapleikur KR á tímabilinu og næst er það risaleikur í Keflavík.

„Þetta er brekka. Þú getur ekki alltaf verið að njóta góða tímans. Það koma móment þegar hlutirnir ganga illa og við erum bæði í meiðslum og erum algjörlega taktlausir,” sagði Finnur sem bætti við að endingu:

„Það er erfitt, en alvöru keppnismenn skorast ekki á undan áskorunum. Við þurfum að finna leiðir og við gerum það ekki öðruvísi en að vinna saman og hjálpast að.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira