Viðskipti innlent

Sigrún Ragna ráðin forstjóri Mannvits

Atli Ísleifsson skrifar
Sigrún Ragna var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016.
Sigrún Ragna var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016. mannvit
Stjórn Mannvits hefur ráðið Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem nýjan forstjóra félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Sigrún Ragna var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016. 

Sigrún tekur við starfinu af Sigurhiti Snorrasyni sem lauk störfum hjá fyrirtækinu á dögunum eins og Fréttablaðið greindi frá.

„Hún var framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hjá Íslandsbanka frá 2008 til 2011 og starfaði áður í um 20 ár hjá Deloitte og fyrirrennurum þess þar sem hún var einn af eigendum og stjórnarformaður. Sigrún Ragna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, löggiltur endurskoðandi auk þess sem hún lauk MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík 2007. Sigrún Ragna hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka, m.a. Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fjármálafyrirtækja.

Gert er ráð fyrir að Sigrún Ragna hefji störf hjá Mannviti þann 1. desember næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Sigrúnu Rögnu að hún hlakki til að taka við sem forstjóri þessa öfluga og alþjóðlega þekkingarfyrirtækis og fá tækifæri til að starfa í hópi frábærra starfsmanna við áframhaldandi uppbyggingu félagsins á sviði tæknilegrar þróunar og nýsköpunar.

Sigurður Sigurjónsson, stjórnarformaður Mannvits, kveðst afar ánægður með að fá Sigrúnu Rögnu til liðs við fyrirtækið til að leiða starfsemi félagsins hér heima og erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×