Körfubolti

Hrafn: Þurftum þennan sigur sama hvernig hann kæmi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hrafn og félagar eru komnir aftur á sigurbraut.
Hrafn og félagar eru komnir aftur á sigurbraut. vísir/andri marinó
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður eftir mikilvægan sigur á Þór Ak. í kvöld. Fyrir leikinn höfðu Stjörnumenn tapað fjórum leikjum í röð.

„Þakklæti. Við þurftum þennan sigur sama hvernig hann kæmi. Þegar lið missa leiki, tvö töp í framlengingu og þannig; mér leið eins og við værum að spila gegn sjálfum okkur,“ sagði Hrafn eftir leik.

„Auðvitað hjálpaði það okkur mikið að [Marques] Oliver fór út af en mér leið eins og það skipti engu máli hverjir væru inn á. Þetta hefði alltaf orðið svolítið þungt. En við tókum sigur og byggjum á því.“

Stjarnan var undir nær allan tímann en seig fram úr á lokasprettinum og endaði á því að vinna átta stiga sigur.

„Auðvitað eru hlutir sem hægt er að byggja á. Málið er að við fengum alveg skot en það er bara erfitt að ná sér af því að vera 1/17 í skotum áður en þú skorar aðra körfuna. Það voru opin skot og sniðsskot. Ég veit ekki hvað við brenndum af mörgum sniðsskotum en veit að það endist ekki í gegnum heilt tímabil,“ sagði Hrafn.

Hann viðurkennir að svæðisvörnin sem Þór byrjaði leikinn í hafi komið sér á óvart.

„Já, þannig lagað. Mér fannst við fá fullt af skotum á móti svæðisvörninni en þau fóru ekki ofan í. Þá bjuggum við okkur strax til leik sem var okkur þungur,“ sagði Hrafn sem fer með sína menn til Grindavíkur í næstu umferð.

„Eins ótrúlegt og það er líður þessi liði þannig að það eigi að geta gefið öllum liðum í deildinni leik. Það hefur bara verið auðvelt að slá okkur út af laginu. En við komum til baka í þessum leik, vorum flottir í 4. leikhluta og byggjum á því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×