Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Kóngurinn hjá Valsmönnum bestur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sjöunda umferð Domino's deildar karla kláraðist í gærkvöld með leik Njarðvíkur og Grindavíkur suður með sjó.

Umferðin var að vanda gerð upp í Domino's Körfuboltakvöldi í gær og völdu sérfræðingarnir þá sem stóðu upp úr í umferðinni.

Urald King var valinn leikmaður umferðarinnar eftir magnaða frammistöðu hans gegn ÍR.

King setti niður 31 stig og var með 65 prósenta skotnýtingu. Hann tók ekki eitt einasta þriggja stiga skot í leiknum og aðeins tvö víti, svo stig hans komu nær öll úr teignum.

Hann tók einnig 14 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Samtals skilaði þetta King 37 framlagspunktum.

King er að sjálfsögðu í úrvalsliði vikunnar eftir þessa frammistöðu. Þar eru með honum þeir Kári Jónsson, Oddur Rúnar Kristjánsson, Christopher Caird og Finnur Atli Magnússon. Ívar Ásgrímsson þjálfar liðið eftir stórsigur hans manna í Haukum á KR í DHL-höllinni í Vesturbænum.

Kári og Finnur Atli voru frábærir með Haukum á fimmtudaginn, en Kári skoraði 21 stig. Finnur Atli skoraði 12 stig, tók 11 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Christopher Caird var bestur í liði Tindastóls sem fór með auðveldan sigur á Þór Þorlákshöfn. Hann skoraði 20 stig, tók 6 fráköst og fiskaði sex villur. Hann fékk fyrir það 27 framlagspunkta.

Oddur Rúnar fór fyrir Njarðvíkingum gegn Grindavík. Hann skoraði 22 stig í leiknum og skoraði úr öllum níu vítaskotum sínum. Hann tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×