Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Ágúst Orri varð faðir í beinni útsendingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það getur ýmislegt gerst í beinni útsendingu og því fékk Domino's Körfuboltakvöld heldur betur að kynnast í gær. Jón Halldór Eðvaldsson, einn spekinga þáttarins, tók upp á því að feðra Ágúst Orrason, leikmann Keflavíkur.

„Ég ætla bara að fá að hrósa Gústa fyrir. Þau eignast barn, hann og konan hans, og öfugt við aðra karlmenn sem eignast barn þá spýtir hann í og spilar eins og kóngur,“ sagði Jón Halldór undir myndbandi sem sýndi brot af spilamennsku Ágústs gegn Hetti á fimmtudaginn.

Þegar myndbandinu var lokið sást þáttastjórnandinn, Kjartan Atli Kjartansson, glottandi þegar hann kynnti inn nokkur tíst frá áhorfendum þáttarins. Þá kom í ljós að Ágúst var ekki að eignast barn, hann er í raun barnlaus.

Ágúst var meðal þeirra sem tók til Twitter og sagðist hafa þurft að útskýra sín mál fyrir kærustu sinni.





Þá brustu á hlátrasköllinn frá sérfræðingunum, sérstaklega Jóni.

„Málið er, ég var að reyna að finna einhverja skýringu að Ágúst væri búinn að spila svona vel, og ég giskaði bara,“ sagði Jón Halldór á milli hláturstáranna.

Þetta stórskemmtilega atvik má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×