Fótbolti

Fyrirliði Atlético: „Evrópudeildin er algjört drasl“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gabi er ekki mikið fyrir fimmtudagsboltann.
Gabi er ekki mikið fyrir fimmtudagsboltann. vísir/getty
Gabi, fyrirliði spænska liðsins Atlético Madrid, hefur engan áhuga á að spila í Evrópudeildinni eftir áramót fari svo að liðið komist ekki áfram í Meistaradeildinni.

Atlético er í vondum málum í C-riðli eftir tvö jafntefli á móti Qarabag frá Aserbaídjan í röð en það er í þriðja sæti með þrjú stig, fjórum stigum frá öðru sætinu og á eftir leiki gegn Roma og Chelsea.

Liðið sem hafnar í þriðja sæti „fellur“ niður í Evrópudeildina og mætir til leiks í 32 liða úrslitum hennar þegar hún fer aftur af stað á nýju ári. Gabi vill heldur vera alveg laus við Evrópukeppni en að spila í henni.

„Evrópudeildin er algjört drasl,“ sagði Gabi við fréttamenn eftir vonbrigðin í Madríd í gær þar sem liðið marði jafntefli á móti Qarabag.

Gabi dró síðan aðeins í land þegar hann mundi að hann hefur nú unnið Evrópudeildina en það gerði hann með Atlético árið 2012. „Evrópudeildin hefur samt gefið mér mikið og ef við neyðumst til að spila í henni munum við spila til að vinna,“ sagði Gabi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×