Sport

Samþykkja skynsamar drykkjureglur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Joe Root, fyrirliði enska landsliðsins.
Joe Root, fyrirliði enska landsliðsins. vísir/getty
Enska landsliðið í krikket er á leið í keppnisferðalag til Ástralíu. Það verður ekki áfengisbann í ferðinni en leikmenn hafa samþykkt að uppfylla það sem er kallað „skynsamar drykkjureglur“.

Það verður ekkert útivistarbann á leikmenn eða þeim sagt að koma aftur á hótel fyrir ákveðinn tíma. Þeim er treyst til þess að vera skynsamir.

„Það þýðir ekki. Við verðum að treysta á að menn séu nógu skynsamir til að fara að sofa á kristilegum tíma. Hvað varðar drykkjuna þá er einfaldlega ekki skynsamlegt að drekka á milli leikja. Þetta eru því skynsamar reglur sem við höfum sett upp,“ sagði landsliðsþjálfarin Trevor Bayliss.

Því hefur oft verið haldið fram að það sé slæm drykkjumenning í landsliðinu en einn leikmaður landsliðsins var handtekinn í september er landsliðsverkefni var í gangi.

Fyrirliðinn Joe Root hafnar því að það sé vond drykkjumenning í landsliðinu.

„Þetta er langt og mikið ferðalag og menn verða að velja rétta tímann til þess að fá sér tvo bjóra. Við erum fullorðnir menn og verðum að kunna að haga okkur,“ sagði Root.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×