Fótbolti

Dele Alli pakkaði Real saman í gær en þetta var hann að gera fyrir sléttum fimm árum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frá MK Dons í Meistaradeildina með Spurs.
Frá MK Dons í Meistaradeildina með Spurs. vísir/getty
Dele Alli, leikmaður Tottenham, spilaði sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni á þessari leiktíð í gærkvöldi þegar að Tottenham vann Real Madrid, 3-1.

Alli byrjaði leiktíðina í þriggja leikja Evrópubanni en sneri aftur með stæl í gærkvöldi og skoraði tvö mörk fyrir Spurs sem vann Real Madrid í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Tottenham náði jafntefli á Bernabéu fyrir viku síðan og er nú í bílstjórasætinu í H-riðli. Það er í góðri stöðu að vinna riðilinn en í fyrra féll liðið niður í Evrópudeildina og tapaði svo þar í 32 liða úrslitum.

Uppgangur Dele Alli hefur verið svakalega hraður en þessi 21 árs gamli Englendingur var keyptur frá MK Dons til Tottenham á fimm milljónir punda í janúar 2015. Hann var lánaður aftur til 1. deildar liðsins og hóf leik með Tottenham í ágúst 2015.

Í gær voru nánast fimm ár upp á dag síðan að Dele Alli, þá 16 ára, þreytti frumraun sína með MK Dons. Hann kom inn á sem varamaður í fyrstu umferð bikarsins á móti Cambridge City.

Alli sýndi strax hvað í hann er spunnið með fallegum tilþrifum. Hann skoraði svo glæsilegt mark með þrumuskoti í seinni leiknum á móti Cambridge en sá fyrri endaði með jafntefli.

Nú, fimm árum síðar, er þessi ungi enski landsliðsmaður einn af eftirsóttustu miðjumönnum heims og maðurinn sem gerði grín að Evrópumeisturum Real Madrid.

BBC tók saman stutt og skemmtilegt myndband um þessi tímamót Dele Alli sem má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×