Börsungar með fjögurra stiga forskot á Spáni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Lionel Messi markaði sinn 600. leik fyrir Barcelona með 2-1 sigri á Sevilla á heimavelli í lokaleik dagsins í La Liga.

Messi náði þó ekki að skora í leiknum. Paco Alcacer kom Barcelona yfir á 23. mínútu eftir varnarmistök Sergio Escudero. Escudero komst inn í sendingu Luis Suarez, en leyfði Alcacer svo að stela boltanum af sér og Spánverjinn kláraði færið snyrtilega.

Gestirnir jöfnuðu á 59. mínútu leiksins eftir að hafa ógnað marki Börsunga stuttu áður. Guido Pizarro skallaði þá boltann í netið eftir hornspyrnu.

Það tók Börsunga hins vegar aðeins sex mínútur að komast aftur yfir og aftur var það Alcacer sem var á ferðinni. Þá potaði hann fyrirgjöf Ivan Rakitic í netið og var svo tekinn útaf um leið og hann hætti að fagna markinu.

Barcelona þurfti að hafa fyrir sigrinum og er nú með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar á Valencia í öðru sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira