Fótbolti

Mest pirrandi þrenna tímabilsins til þessa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cédric Bakambu.
Cédric Bakambu. Vísir/Getty
Cédric Bakambu er 26 ára gamall framherji spænska liðsins Villarreal og jafnframt leikmaður landsliðs Austur-Kongó. Hann fékk að upplifa pirruðustu þrennu tímabilsins til þessa í gær í leik með Villarreal í spænsku deildinni.

Cédric Bakambu kom boltanum þrisvar sinnum í mark andstæðinganna á La Cerámica vellinum í gær en ekkert markanna fékk að standa. Þau voru öll dæmd af vegna rangstöðu.



Cédric Bakambu gat reyndar huggað sig við það að Villarreal liðið vann 2-0 sigur á Málaga í leiknum þrátt fyrir að hann hafi ekki komist á blað.

Bakambu hefur spilað vel í spænsku deildinni og er kominn með átta mörk í tíu leikjum þar af sex mörk í síðustu fimm.

Hann hefði verið kominn með ellefu mörk hefði þessi þrjú fengið að standa en aðeins Lionel Messi (12 mörk) hefur skorað fleiri mörk í spænsku deildinni á tímabilinu.

Átta mörkin hans Bakambu duga honum upp í þriðja sætið á eftir Messi og Simone Zaza hjá Valencia (9 mörk).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×