Erlent

Um 120 Íslendingar deyja árlega vegna mengunar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Loftmengun er sú gerð mengunar sem dregur flesta til dauða.
Loftmengun er sú gerð mengunar sem dregur flesta til dauða. Vísir/GVA
Grein í vísindaritinu The Lancet rekur eitt af hverjum sex dauðsföllum ársins 2015 til mengunar. Hópurinn sem stóð að greininni segir að mengunin leiði til ósmitbærra sjúkdóma á borð við lungakrabbameins, heilablóðfalla og hjartasjúkdóma sem svo dregur fólk til dauða. Leggst hún því verst á þá sem veikastir eru fyrir; svo sem fólk með undirliggjandi sjúkdóma, börn og aldraða.

Um er að ræða 9 milljón andlát á heimsvísu, langflest þeirra í löndum með lágar- eða miðlungsháar meðaltekur. Þar mátti rekja allt að 25% allra dauðsfalla til mengunar. Bangladess og Sómalía eru þau lönd sem verst urðu úti en Svíþjóð og Brúnei sluppu einna best.

Ísland er í áttunda neðsta sæti en rúmlega fimm prósent andláta hér eru sögð vera vegna mengunar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar létust um 2158 Íslendingar árið 2015 og mætti því ætla að mengun hafi dregið rúmlega 110 þeirra til dauða það árið.

Jafnframt kemur fram í greininni, sem nálgast má hér, að loftmengun sé mannskæðasta gerð mengunar og er hún talin bera ábyrgð á tveimur þriðju hlutum mengunartengdu dauðsfallanna. Næst kemur vatnsmengun, 1,8 milljón dauðsföll, og því næst mengun á vinnustöðum, 800 þúsund.

„Mengun er stærsta náttúrulega orsök sjúkdóma og ótímabærra dauðsfalla í heiminum í dag,“ segir í útdrætti greinarinnar og bætt við að um þrefalt fleiri hafi dáið árið 2015 vegna mengunar en úr eyðni, berklum og malaríu til samans. Þá dóu fimmtánfalt fleiri af mengunartengdum sjúkdómum en í öllum stríðum þess árs.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×