Fótbolti

Neymar færði Messi vondar fréttir í brúðkaupsgjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi, Lionel Messi og Neymar.
Xavi, Lionel Messi og Neymar. Vísir/Getty
Lionel Messi bauð þáverandi liðsfélaga sínum Neymar í brúðkaup sitt síðasta sumar en það er óhætt að segja að þar hafi Brasilíumaðurinn stolið senunni frá Argentínumanninum.

Xavi, goðsögnin hjá Barcelona, var einnig gestur í brúðkaupinu og hann hefur nú greint frá því hvað Neymar gerði í brúðkaupi Messi. Brúðkaupið fór fram í júlí og þar sagði Neymar frá því að hann væri á förum frá Barcelona.

Franska liðið Paris Saint-Germain keypti Neymar síðan á 222 milljónir evra í ágúst en Neymar spilaði í fjögur tímabil með Barcelona-liðinu.

Xavi var liðsfélagi Neymar á tveimur fyrstu tímabilum hans á Nývangi en lagði svo skóna á hilluna.

„Hann sagði okkur það í brúðkaupi Messi að hann vildi breyta um lið. Ég spurði hann af hverju og hann sagðist ekki vera ánægður í Barcelona. Þetta var hans ákvörðun og við verðum að virða hana,“ sagði Xavi við BBC en þessi fyrrum frábæri miðjumaður hefur trú á Neymar á nýja staðnum.

„Ég tel að með Neymar og Kylian Mbappe þá eigi PSG góða möguleika á því að vinna Meistaradeildina,“ sagði Xavi.

Xavi sagði frá þessu í viðtali við BBC en þar talaði hann einnig um möguleikann á að fara til Manchester United á sínum tíma. Martin Ferguson, bróðir Sir Alex Ferguson, var njósnari fyrir Manchester United og vildi reyna sannfæra Xavi um að koma til enska liðsins.

Xavi valdi það hinsvegar að vera áfram hjá Barcelona því að það hafi verið hans uppáhaldslið. Xavi spilaði alls í sautján ár hjá félaginu og vann með því 25 titla.

„Ég vildi vera alltaf í Barcelona. Þetta er mitt uppáhaldslið. Barcelona á stað í hjarta mínu,“ sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×