Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Framlenging - Höttur fallinn eins og Titanic

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Teitur Örlygsson og Kristinn Geir Friðriksson tókust á í Framlengingunni í Domino's Körfuboltakvöldi í gærkvöld.

Nýliðar Hattar og Vals mættust á Egilsstöðum og unnu gestirnir í framlengdum leik.

„Ég spáði þeim í úrslitakeppni, við spáðum þeim níunda. Ég er farinn af þessu skipi, þetta er bara Titanic fyrir mér, ég nenni þessu rugli ekki,“ sagði Kristinn Geir, en Höttur hefur ekki staðið undir væntingum í byrjun tímabils og hafa tapað öllum leikjum sínum.

„Þeir eru fallnir. Gleymdu þessu rugli.“

Stefan Bonneau er kominn í Stjörnuna, gerir hann þá að meistaraefnum?

„Það er ekki sama sprengi í honum og við þekkjum, en vonandi nær hann sér á strik,“ sagði Teitur.

Kristinn tók undir það. „Það er einhver óheilla ára yfir honum finnst mér. Toppmaður og allur pakkinn, en það vantar rosalega mikið upp á þennan glamúr sem hann var að sýna með Njarðvík.“

Þór Þorlákshöfn hafa valdið vonbrigðum í upphafi tímabils, eftir að hafa orðið Meistarar meistaranna hafa þeir ekki unnið leik.

„Ég hélt að það væri eitthvað chemistry og einhver stemming, nei akkúrat þveröfugt. Burt með þennan Kana, hann er í engu formi og ekkert að gera fyrir liðið og það sést á öllu fasi í liðinu,“ sagði Kristinn.

„Þetta er ekki lið lengur, þetta eru tætlur af einstaklingum sem eru að reyna að berja sig saman, andrúmsloftið er ömurlega lélegt.“

Þeir ræddu einnig hvaða lið séu búin að heilla mest framan af móti og hvernig liðin í deildinni eru að nýta bekkinn sinn. Alla Framlenginguna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×