Skoðun

Heitur ís

Torfi Tulinius skrifar
Það verður að gera ráð fyrir því að fólk trúi því sem það segir sjálft, m.a.s. stjórnmálamenn.

Nú keppast allir flokkar við að lofa afnámi fátæktar, styrkingu innviða, uppbyggingu heilbrigðiskerfis og jafnvel stórauknum fjármunum til mennta- og velferðarmála. Eitt er gott við hversu stutt er frá síðustu kosningum: þeir sem héldu uppi þessum boðskap þá og mynduðu stjórnina sem féll í september, Viðreisn, Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur, sýndu í fjármálaáætlun til fimm ára og fjárlagafrumvarpi að þeir ætluðu ekki að standa við gefin loforð nema að mjög takmörkuðu leyti.

Fyrirætlanir þeirra um uppbyggingu, menntun og velferð takmörkuðust við það að þeir voru ekki tilbúnir að afla þeirra varanlegu tekna sem nauðsynlegar eru til að standa undir framsæknu samfélagi sem hlúir að börnum, sjúkum og öldruðum en skapar jafnframt aðstæður fyrir einstaklinga til að njóta hæfileika sinna; samfélag sem um leið býr sig undir að takast á við þær risavöxnu áskoranir sem bíða okkur í nálægri framtíð: umhverfisvá og ójöfnuð, bæði á hnattræna vísu og hér innanlands. Slíkt samfélag er hægt að byggja hér á Íslandi en ekki nema við aukum sameiginlegar tekjur okkar með því að taka upp skattkerfi í líkingu við flestar þjóðir sem við berum okkur saman við, þ.e. með hærri fjármagnstekjuskatti, auðlindagjöldum, auðlegðarskatti og þriðja skattþrepi hátekjufólks.

Slíkir skattar eru ekki jafn háðir hagsveiflum og neysluskattar, slá á þenslu auk þess sem þeir ýta undir velferð og jöfnuð t.d. með því að gera kleift að stórefla barnabætur og aðra aðstoð við ungt fjölskyldufólk. Það hefur hallað mjög á ungar fjölskyldur á undanförnum árum og áratugum, en barnabætur eru fyrirtaks tekjujöfnunartæki og koma sér vel jafnt fyrir þá sem hafa lágar tekjur og hærri.

Sjálfstæðisflokkur hefur um áratuga skeið verið mótfallinn því að styrkja grundvöll samneyslunnar. Því miður á það við um fleiri framboð. Þeir sem halda því fram, með fráfarandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson, í fararbroddi, að það sé hægt að auka heilbrigði, velferð og menntun til frambúðar án þess að bæta tekjuöflun samfélagsins blekkja sjálfa sig og aðra. Þeir trúa og vilja að kjósendur trúi hinu ómögulega: að hvítt sé svart, að vont sé gott og að ís sé heitur.

Höfundur er prófessor í íslenskum miðaldafræðum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×