Skoðun

Skattar og lífskjör – áróður og veruleiki

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar
Því er oft haldið á lofti, að munurinn á hægri- og vinstri flokkum sé sá að hægri flokkar leitist við að lækka skatta, og „spara í opinberum útgjöldum,“ en vinstri flokkar vilji hækka skatta til að standa undir velferðinni.

Í fyrsta lagi snýst skattastefna ekki fyrst og fremst um hækkun eða lækkun skatta, heldur hvernig skattbyrðinni er skipt. Í öðru lagi er ekki alltaf samhengi milli hærri skatta og aukinnar velferðar. Í þriðja lagi er verulegt misræmi milli orða og athafna þeirra flokka sem hafa stjórnað undanfarna áratugi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur t.d. verið í ríkisstjórn um 23 ár af síðustu 30 árum og allan þann tíma undir slagorðum svonefndrar nýfrjálshyggju, um lækkun skatta og talar nú um „áframhaldandi lækkun skatta“.

Tekjuskattur

Ef við athugum hvernig tekjuskatturinn hefur þróast á þessum tíma kemur í ljós að persónuafslátturinn hefur þrefaldast í krónutölu, meðan almennt verðlag hefur hækkað næstum tvöfalt meira. Tekjuskatturinn hefur því hækkað verulega, og hlutfallslega langmest á láglaunafólk. Um leið hafa iðgjöld í lífeyrissjóði hækkað talsvert, og það er auðvitað bara skattur. „Áframhaldandi“ hvað?

Notendagreiðslur í heilbrigðiskerfinu hafa margfaldast, ásamt ýmsum öðrum þjónustugjöldum. Lóðagjöld og annar stjórnsýslukostnaður hefur hækkað verð á húsnæði, og þar með skuldir almennings. Það þyngir kostnaðinn við okurvexti og verðbætur, sem eru í raun eins konar skattur.

Lífsgæði

En þó að skattar á almenning hafi óvart stórhækkað, í stað þess að lækka, hefur það þá ekki skilað sér í meiri velferð og bættum lífskjörum á þann hátt? Þvert á móti. Fátækt hefur stóraukist, og er í dag útbreitt þjóðfélagsmein. Aðgangur að heilbrigðiskerfinu er verulega skertur. Aðgangur að menntun er á undanhaldi. Ójöfnuður hefur aukist gríðarlega og réttindi vinnandi fólks eru í uppnámi.

Þessi þróun hefur verið óháð því hvaða flokkar hafa verið í stjórn, enda hafa þeir allir stjórnað í beinu umboði auðstéttarinnar, sem tekur til sín æ stærri hlut gegnum fjármálakerfið og vaxandi tök á innviðum samfélagsins.

Þessari þróun verður að snúa við með baráttu alþýðunnar fyrir sínum efnahagslegu og pólitísku hagsmunum. Fyrir félagsvæðingu fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins, fyrir betri lífskjörum og auknum jöfnuði. Baráttan gegn yfirráðum auðstéttarinnar yfir samfélaginu verður að eflast á öllum sviðum. Alþýðufylkingin væntir stuðnings frá þér og þátttöku í þessari baráttu.

 

Höfundur er trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×