Skoðun

Ísland er framtíðin

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Ísland var í 16. sæti árið 2016 á lista Sameinuðu þjóðanna yfir bestu lífskjör í heiminum. Danmörk, Noregur og Svíþjóð voru fyrir ofan okkur, en Finnland fyrir neðan. Þó við séum að koma vel út þegar kemur að jöfnuð í samfélaginu, þurfum við að gera enn betur svo Ísland verði ákjósanlegur valkostur fyrir unga fólkið í framtíðinni.

Framsókn leggur ríka áherslu á jafnan rétt til menntunar, óháð búsetu og efnahag. Nauðsynlegt er að auka fjárframlög til háskólanna svo þau nái OECD-meðaltalinu árið 2020. Ein króna inn í háskólastigið skilar sér áttfalt inn í hagkerfið. Ísland þarf að vera framarlega á sviði tækni og nýsköpunar til að geta mætt kröfum framtíðarinnar. Fjölbreytt framboð á menntun og símenntun er lykilþáttur í því sambandi. Við höfum líka lagt áherslu á að þeir fjármunir sem sparast við styttingu framhaldsskólans í þrjú ár verði nýttir til að byggja upp og þróa framhaldsskólastigið, t.d. í verk- og iðnnámi.

Fjölbreytt og áhugaverð störf þurfa að vera í boði fyrir ungt fólk í framtíðinni. Sú tæknibylting sem framundan er mun án efa skapa mörg ný, spennandi atvinnutækifæri fyrir ungt fólk í náinni framtíð. En það gerist ekki af sjálfu sér. Framsókn vill að á fyrstu 100 dögum nýrrar ríkisstjórnar verði endurgreiðsluhlutfall á rannsóknar- og þróunarkostnaði hækkað úr 20% í 25% svo skapa megi ný tækifæri á þeim umbreytingartímum sem framundan eru. Stjórnvöld þurfa að styðja vel við fyrirtæki sem fjárfesta í hugverka- og þekkingariðnaði.

Mikil fjölgun hefur verið á leigumarkaði á Íslandi en 80% þeirra vilja eignast sitt eigið húsnæði. Framsókn hefur lagt fram raunhæfa aðgerð sem gengur út á að ungu fólki verði heimilt að taka út það iðgjald sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðakaup. Þessi leið hefur nýst vel í Sviss til að auðvelda fólki að eignast húsnæði. Samhliða þessari aðgerð verður meira framboð af húsnæði að vera til staðar. Ísland þarf að geta boðið upp á sambærilegar aðstæður til húsnæðiskaupa og önnur norræn ríki.

 

Höfundur er varaformaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×