Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Höttur 93-85 | Þórsarar sterkari á lokasprettinum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
vísir/anton
Þórsarar eru komnir með fjögur stig eftir fjóra leiki í Dominos deildinni eftir átta stiga sigur á Hetti í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld.

Stigalausir Hattarmenn mættu afar vel stemmdir til leiks og ætluðu sér greinilega fyrsta sigurinn. Þeir slógu heimamenn út af laginu og voru níu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta þrátt fyrir lítið framlag frá Aaron Moss og Mirko Stefan.

Þórsarar voru þó ekki af baki dottnir og voru komnir í forystu um miðjan annan leikhluta. Það var því vel við hæfi að jafnt væri í leikhléi.

Úr varð að leikurinn var jafn og spennandi allt til loka en heimamenn höfðu að lokum átta stiga sigur, 93-85.

Afhverju vann Þór?

Eftir að staðan var jöfn í leikhléi tóku Þórsarar frumkvæðið í upphafi þriðja leikhluta og voru gestirnir því að elta leikinn allt til enda. Sigurinn hefði alveg getað dottið til Hattar því þeir náðu að komast yfir þegar ein mínúta og þrjár sekúndur voru eftir af leiknum. Þeir Pálmi Geir Jónsson og Júlíus Orri Ágústsson stigu heldu betur upp á þessari lokamínútu og settu báðir stór þriggja stiga skot niður.

Bestu menn vallarins

Pálmi Geir Jónsson var maður leiksins. 27 stig og 10 fráköst og ekki nóg með það heldur var það hann sem steig upp þegar mest á reyndi og setti niður mjög mikilvægar körfur á lokamínútum leiksins. Marques Oliver var fyrirferðamikill að vanda og var nálægt því að koma sér á þrennuvegginn. 17 stig, 20 fráköst og 9 stoðsendingar.

Sigmar Hákonarson var besti leikmaður Hattar. Hann átti flotta spretti, þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann var bar uppi sóknarleik Hattar. Ragnar Gerald sýndi sömuleiðis góð tilþrif inn á milli.

Hvað gekk illa?

Aaron Moss var í alls kyns vandræðum allan leikinn. Sindri Davíðsson límdi sig á hann til að byrja með og var Moss varla með í fyrri hálfleik. Hann lét mótlætið fara í taugarnar á sér sem skilaði sér í villuvandræðum en hann fékk fjórðu villu sína um miðbik þriðja leikhluta. Hattarmenn þurfa á meiru að halda frá atvinnumanninum sínum en auk þess að spila illa lenti Moss reglulega í útistöðum við þátttakendur leiksins, þá helst dómarana og liðsfélaga sína.

Tölfræði sem vakti athygli

26 stoðsendingar Þórs gegn 13 stoðsendingum Hattar. Þórsarar voru að dreifa boltanum vel og betur en áður í vetur. Oliver með níu stoðsendingar og Sindri Davíðsson bætti við sjö.

Hjalti Þór: Ekki okkar besti leikur

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, var að vonum sigurreifur eftir þennan baráttusigur.

„Þetta var ekki fallegur körfubolti. Það var greinilegt að það var mikið undir og menn lögðu mikið á sig til að ná í sigur. Alltaf þegar við náðum upp einhverju forskoti vorum við sjálfum okkur verstir. Þegar við héldum okkar plani þá svínvirkaði allt saman,“ segir Hjalti sem kveðst ekki hafa sett leikinn upp sem úrslitaleik, jafnvel þó báðum liðum sé spáð fallbaráttu.

„Nei alls ekki. Við erum bara þannig að við mætum í hvern leik til að gera okkar besta. Við erum ekkert að spá mikið í andstæðingunum eða í hvaða sæti þeir eru.“    

Annar sigur Þórs í vetur staðreynd en Hjalti segir frammistöðu liðsins í kvöld hafa verið ágæta en ekkert frábæra.

„Þetta var rosalegur barningur og frekar grófur leikur eins og sést á villunum. Við héldum haus og það var aðalatriðið. Vörnin var góð af og til. Þetta var ekki okkar besti leikur en engu að síður ágætis frammistaða.“    

Þórsarar hafa unnið báða heimaleiki sína í vetur og er Hjalti vongóður um að liðið geti gert Íþróttahöllina að vígi.

„Við erum með frábæra stuðningsmenn og okkur líður vel hérna. Það er meira en að segja það að keyra hingað og fara að spila þannig að já, við ætlum okkur að verja heimavöllinn.“



Viðar Örn: Engin samstaða í mínu liði

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var hundfúll með lið sitt að leik loknum.

„Ég er ósáttur með okkar frammistöðu. Það var bara væl og engin samstaða hjá okkur. Þórsararnir gerðu vel og refsuðu okkur, þeir settu stór skot í lokin en við vorum bara að benda á dómarana og eitthvað svoleiðis. Við erum í miklum vandræðum ef við höldum að þetta sé einhverjum öðrum að kenna en okkur. Við erum bara ekki nógu góðir, það er bara svoleiðis.

Viðar var ekki tilbúinn að ræða sérstaklega frammistöðu Aaron Moss í leiknum.

„Ég ætla bara að ræða liðið. Við erum að ströggla sem lið og hann eins og allir aðrir eru bara hluti af heild sem við erum að reyna að skapa og við erum langt frá því akkúrat núna.“

Hattarmenn eru stigalausir að loknum fjórum leikjum en Viðar trúir því að liðið geti komist á sigurbraut.

„Við áttum ágætis kafla en förum allt of mikið í eitthvað einstaklingsbull og út úr okkar leik, bæði í vörn og sókn. Það er eitthvað sem við þurfum að laga.“

Pálmi: Ætlum ekki að tapa leik hérna í vetur

Pálmi Geir Jónsson var, að öðrum ólöstuðum, besti maður vallarins og hann var eðlilega í skýjunum í leikslok.

„Við erum mjög glaðir. Þetta var skyldusigur fyrir okkur ef við ætlum að halda okkur í þessari deild og við viljum líka gera aðeins meira en það. Við komum flatir inn í þennan leik en um leið og við fórum að spila okkar vörn fannst mér þeir aldrei eiga breik í okkur,“ sagði Pálmi.

Hann segir leikmenn hafa gert sér grein fyrir mikilvægi leiksins en báðum liðum er spáð í neðri hluta deildarinnar. Lögðu Þórsarar leikinn upp sem úrslitaleik?

„Þetta var þannig leikur. Hjalti var samt duglegur að segja við okkur í vikunni að þetta væri bara einn leikur sem við viljum vinna eins og alla aðra en auðvitað var það aftast í kollinum á mönnum að við yrðum að vinna þennan leik.“

Pálmi skilaði 27 stigum niður auk þess að rífa niður 10 fráköst en hann hefur verið mjög drjúgur fyrir Þórsara í upphafi leiktíðar eftir að hafa gengið í raðir Akureyrarliðsins frá Tindastól í sumar.

„Ég er bara að spila minn leik. Ég hefði getað spilað svona í fyrra og hitteðfyrra ef ég hefði fengið tækifæri. Núna er ég með þjálfara sem trúir á mig og þá fara skotin ofaní, þetta er ekki flókið.“

Þórsarar eru búnir að vinna báða heimaleiki sína og segir Pálmi að svoleiðis verði það í allan vetur.

„Já það er stefnan, við ætlum ekki að tapa leik hérna í vetur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira