Innlent

Kvartað undan óumbeðnum áróðursskeytum Flokks fólksins

Kjartan Kjartansson skrifar
Skilaboðin voru send kl. 17:43 í dag.
Skilaboðin voru send kl. 17:43 í dag. Vísir
Flokkur flokksins virðist hafa brotið gegn fjarskiptalögum þegar hann sendi út smáskilaboð í síma til fólks sem er ekki skráð fyrir sendingum frá flokknum í dag. Kvartað hefur verið undan smáskilaboðunum til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Í skilaboðunum þar sem móttakendur eru hvattir til að nýta kosningarétt sinn leggur Flokkur fólksins til að afnema frítekjumark og hækka skattleysismörk. Skilaboðin virðast hafa verið send út síðdegis í dag.

Samkvæmt 46. grein fjarskiptalaga er einungis heimilt að senda SMS-skilaboð í beinni markaðssetningu þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram.

Drífa Pálín Geirsdóttir er ein þeirra sem vakti athygli á skilaboðunum Flokks fólksins á Twitter. Hún staðfestir að hún hafi kvartað undan þeim á vefsíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Í þræði við tíst hennar kemur fram að fleiri hafi fengið skilaboðin og að fleiri hafi kvartað undan þeim til stofnunarinnar. Blaðamaður Vísis var einnig einn þeirra sem fékk skilaboðin óumbeðnu.

Ekki náðist í fulltrúa Flokks fólks um viðbrögð strax í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×