Innlent

„Aðal hugsjónin mín er að reyna að útrýma fátækt á Íslandi“

Birgir Olgeirsson skrifar
Inga Sæland fagnar með sínu fólki á kosningavöku Flokks fólksins.
Inga Sæland fagnar með sínu fólki á kosningavöku Flokks fólksins. Vísir/Ernir
„Ég átti ekki vona á þessu. Ég er bara auðmjúk,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem er með fjóra menn á þingi eins og staðan er núna. Hún þakkar góðu starfi flokksins og kjósendum sínum þennan árangur. „Það er ekki hægt að þakka neinu öðru en þeim sem tóku utan um okkar litla flokk og hófu okkur upp þar sem við erum núna.“

Hún segist ekki geta áttað sig á því hvað varð til þess flokkurinn tók þetta mikla stökk á kosningadag en flokkurinn hafði ekki mælst á þingi í skoðanakönnunum vikuna fyrir kosningar.

Hún segist ekki útiloka samstarf við neinn flokk.

„Ég hef ævinlega sagt það að við störfum með öllum sem vilja taka utan um okkar hugsjónir. Aðalhugsjónin mín er að reyna að útrýma fátækt á Íslandi. Ég get ekki séð annað en að allir sem störfuðu í þessari kosningabaráttu séu á því plani. Það er mín bjargfasta trú og von að við sýnum þann þroska að taka  utan um fólkið okkar og gera það vel.“

Hún segir að hún verði eflaust steinhissa þegar hún mætir á þingið yfir því hennar rödd sé komin þangað, aðspurð hvert verður hennar fyrsta verk sem þingmaður. „En að öðru leyti veit ég ekkert hvað verður um mig, hvort sem ég verð í meiri- eða minnihluta. Ég mun halda ótrauð áfram þeirri vegferð sem ég hef hafið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×