Innlent

Hélt að hún yrði bara þingmaður í sex klukkutíma

Bjarki Ármannsson skrifar
Bolvíkingurinn Halla Signý Kristjánsdóttir er nýkjörinn þingmaður Framsóknarflokksins í norðvesturkjördæmi.
Bolvíkingurinn Halla Signý Kristjánsdóttir er nýkjörinn þingmaður Framsóknarflokksins í norðvesturkjördæmi. Vísir/Pjetur
„Ég hélt á tímabili að ég yrði bara þingmaður í sex klukkutíma,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, nýkjörinn þingmaður Framsóknarflokksins í norðvesturkjördæmi. Halla er ein nítján nýrra þingmanna sem munu taka sæti á næsta þingi.

Halla krækti í síðasta kjördæmakjörna sætið í boði og var í raun ekki alveg örugg með sæti sitt fyrr en lokatölur bárust frá norðvesturkjördæmi klukkan tíu í morgun.

„Í tvo, þrjá tíma voru bara 47 atkvæði á milli okkar Bjarna Jónssonar,“ segir Halla, sem fylgdist með í alla nótt. „Síðan klukkan tíu í morgun, loksins þegar lokatölur komu, þá skýrðist þetta.“

Halla, sem er fyrrverandi bóndi á Kirkjubóli í Bjarnardal en hefur undanfarin tólf ár starfað sem fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, er ánægð með árangur Framsóknarflokksins í nótt. Hún bendir á að flokkurinn heldur sínum tveimur þingsætum í kjördæminu, þó hvorugur þingmaðurinn frá því í fyrra hafi boðið sig fram aftur. Gunnar Bragi Sveinsson fór í Miðflokkinn og Elsa Lára Arnardóttir sóttist ekki eftir endurkjöri.

„Þannig að við megum vel við una, svona miðað við að það var klofningur, að tapa ekki nema tveimur prósentum,“ segir Halla. „Við erum bara rosalega ánægð.“

Halla náði ekkert að sofa í nótt en aðspurð segist hún ekki hafa neinn tíma til að slaka á nú þegar kosningabaráttunni er lokið.

„Nú er bara aðeins lengra í vinnuna,“ segir hún. „Ég er bara núna að pakka niður í tösku og fara suður. Ég verð að vera tilbúin á morgun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×