Innlent

Katrín og Bjarni gera bæði tilkall til umboðsins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur boðað formenn allra flokkanna á sinn fund á morgun til að ræða hver eigi að fá umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Bæði Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir sækjast eftir umboðinu.

Bjarni Benediktsson gengur fyrstur til fundar við forsetann á Bessastöðum klukkan tíu í fyrramálið. Forsetinn hittir Katrínu Jakobsdóttur klukkan ellefu og svo koll af kolli.

Katrín segist tvonast til þess að hægt verði að mynda ríkisstjórn með þeim flokkum sem voru í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, þ.e. VG, Samfylkingu, Pírötum og Framsókn.

„Það er eðlilegt að sá sem telur sig geta myndað stjórn fá það umboð og það mun skýrast í samtölum forsvarsmanna flokkanna í dag. Ég tel að þessir fjórir flokar eigi að byrja á því að setjast niður,“ segir Katrín. 

Sigurður Ingi Jóhannsson telur eðlilegt að menn skoði myndun slíkrar stjórnar. „Stjórnarandstaðan frá síðasta þingi er með eins manns meirihluta og það er kannski eitthvað sem þarf að skoða en það eru líka aðrir kostir í stöðunni. Við sáum að eins manns meirihluti hélt ekki vel síðast,“ segir Sigurður Ingi.

Bjarni Benediktsson segir eðlilegt að hann sjálfur fái umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað fimm þingsætum. „Mér finnst eðlilegt að flokkur sem vinnur öll kjördæmin og er með mestan þingstyrk, flokkur sem augljóslega er leiðandi og getur verið kjölfestan að hann láti reyna á það að mynda stjórn,“ segir Bjarni.


Tengdar fréttir

Þingheimur eldist um sex ár

Þingflokkar allra flokka sem áttu sæti á Alþingi fyrir kosningar eldast fyrir utan Samfylkinguna. Meðalaldur þingmanna Flokks fólksins er sextíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×