Innlent

Helmingi fleiri karlar en konur oddvitar

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Það var nóg að gera hjá yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis í Kaplakrika í gær þar sem 11 framboðslistar komu fram.
Það var nóg að gera hjá yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis í Kaplakrika í gær þar sem 11 framboðslistar komu fram. Vísir/anton brink
Níu flokkar bjóða fram í öllum sex kjördæmunum fyrir alþingiskosningarnar. Frestur til að skila inn framboðslistum rann út á hádegi í gær. Tólf flokkar skiluðu inn listum til yfirkjörstjórna kjördæmanna.

Hinn nýstofnaði Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar býður fram í öllum kjördæmum líkt og Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri græn, Viðreisn, Píratar, Framsóknarflokkurinn, Björt framtíð og Flokkur fólksins.

Alþýðufylkingin býður fram í fjórum kjördæmum, Norðaustur-, Suðvestur- og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Íslenska þjóðfylkingin í fjórum kjördæmum, Suður-, Suðvestur- og Reykjavíkurkjördæmunum. Dögun býður aðeins fram í Suðurkjördæmi.

Yfirkjörstjórnir þriggja kjördæma úrskurða um gildi framboðanna í dag. Í Norðvesturkjördæmi voru öll framboð samþykkt og í Suðurkjördæmi líka, nema framboð Íslensku þjóðfylkingarinnar. Yfirkjörstjórn vildi ekki tjá sig um hvort flokkurinn fengi frest til að gera úrbætur eða úr hverju þyrfti að bæta. Í Kraganum voru annmarkar á þremur framboðum, Íslensku þjóðfylkingarinnar, Alþýðufylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Flokkarnir fá frest þar til í dag til að gera úrbætur.

Þegar litið er til kynjaskiptingar oddvita í kjördæmunum eru karlar í meirihluta. Af 63 oddvitum listanna sem bjóða fram í kjördæmunum sex eru 42 þeirra karlar eða rúm 66 prósent á móti 21 konu eða rúmum 33 prósentum. 

Mun fleiri karlar eru oddvitar en konur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×