Körfubolti

Hjalti Þór: Okkur er alveg sama hvað öðrum finnst

Arnar Geir Halldórsson. skrifar
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs. Vísir/Ernir
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, var að vonum sigurreifur eftir sinn fyrsta sigur sem þjálfari Þórs en strákarnir hans unnu 90-78 sigur á Keflavík í 2. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta.

„Frábær sigur. Við vorum ósáttir með sjálfa okkur eftir síðasta leik. Okkur fannst við eiga að vinna þann leik líka. Við gíruðum okkur vel fyrir þennan leik og ætluðum okkur sigur og ekkert annað.“

Líkt og í kvöld voru Þórsarar með forystu á löngum köflum í fyrstu umferð gegn Haukum en töpuðu svo leiknum í fjórða leikhluta. Hjalti var duglegur að minna strákana á að klára leikinn út í gegn.

„Ég var alltaf að kalla á strákana að halda fókus og halda áfram. Það hefur vonandi skilað sér því strákarnir gerðu vel og héldu áfram.“

Þórsurum er ekki spáð góðu gengi í Dominos-deildinni en Hjalti hefur ekki miklar áhyggjur af því hvað aðrir hafa segja um liðið.

„Ég hef sagt í mörgum viðtölum að við erum ungir og við eigum bara eftir að verða betri í vetur. Þessi sigur kemur mér ekkert á óvart þó hann komi eflaust mörgum öðrum á óvart. Við höfum trú á okkur sjálfum og okkur er alveg sama hvað öðrum finnst um okkur.“

Hinn 16 ára gamli Júlíus Orri Ágústsson átti frábæra innkomu af bekk Þórsara og sýndi lipur tilþrif.

„Hann var bara X-faktorinn í kvöld. Hann braut þetta upp þegar hann kom inná og skilaði snöggum sex stigum. Hann hefur rosalega hæfileika en hann verður samt að halda sér á jörðinni og halda áfram að bæta sig,“ segir Hjalti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×