Innlent

Samfylkingin mælist með rúmlega 15 prósent

Atli Ísleifsson skrifar
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar. Vísir/anton
Samfylkingin mælist með rúmlega fimmtán prósenta fylgi í nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Morgunblaðið.

Flokkurinn mælist með 15,3 prósent og fengi ellefu þingmenn kjörna. Flokkurinn beið afhroð í kosningunum fyrir tæpu ári og náði einungis þremur mönnum á þing.

Vinstri græn mælist stærstur, fengi 27,4 prósent fylgi og nítján þingmenn. Sjálfstæðisflokkur mælist með 22,6 prósent fylgi og fengi sextán þingmenn.

Hvorki Björt framtíð né Viðreisn fengi samkvæmt könnuninni mann kjörinn á þing, þar sem Björt framtíð mælist með 2,6 prósent fylgi en Viðreisn 3,4 prósent.

Píratar fengju 9,6 prósent og sex þingmenn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins fengju báðir um 6,5 prósent og fjóra þingmenn hvor og Framsóknarflokkurinn 5,5 prósent og þrjá þingmenn kjörna.

Könnunin var gerð dagana 9. til 12. október. Náði hún til þúsund manna netúrtaks og 1.200 manna símaúrtaks. Þátttökuhlutfall var 58 prósent.

Nánar má lesa um könnunina í frétt mbl.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×