Erlent

Fleiri konur saka Weinstein um nauðgun

Atli Ísleifsson skrifar
Lysette Anthony leikur í bresku sápuóperunni Hollyoaks.
Lysette Anthony leikur í bresku sápuóperunni Hollyoaks. Vísir/Getty

Tvær konur til viðbótar hafa nú sakað bandaríska kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að hafa nauðgað sér. Kvikmyndaakademían, sem meðal annars úthlutar Óskarsverðlaununum ár hvert, tilkynnti í gær að Weinstein hafi verið rekinn úr akademíunni.

BBC greinir frá því að breska leikkonan Lysette Anthony segi Weinstein hafa ráðist á sig á heimili hennar í London seint á níunda áratugnum. Þá hefur önnur ónafngreind kona sagt Weinstein hafa nauðgað sér árið 1992.

Sífellt fleiri hafa snúið baki við Weinstein á síðustu dögum í kjölfar röð ásakana um að hann hafi ýmist nauðgað eða áreitt konur kynferðislega. Bróðir Harvey Weinstein, Bob, hefur lýst bróður sínum sem „sjúkum og siðspilltum“ og þá hefur eiginkona hans til tíu ára og barnsmóðir, Georgina Chapman, farið frá honum.

Hinn 65 ára Weinstein hefur neitað því að hafa nauðgað konunum og segir öll kynferðisleg samskipti hafa verið með samþykki beggja aðila. Lögregla í bæði London og New York eru með Weinstein til rannsóknar.

Á þriðja tug kvenna – meðal annars leikkonurnar Angelina Jolie, Gwyneth Paltrow og  Rose McGowan – hafa sakað Weinstein um að hafa ýmist áreitt sig kynferðislega eða nauðgað sér.

Kynntist Weinstein árið 1982

Weinstein hefur verið einn valdamesti maður Hollywood síðustu árin og hafa kvikmyndir sem hann hefur framleitt hlotið rúmlega þrjú hundruð tilnefningar til Óskarsverðlauna og 81 Óskarsverðlaun.

Lysette Anthony segir frá því í samtali við Sunday Times að hún hafi greint lögreglunni í London frá árás af hendi Weinstein. Anthony, sem leikur í bresku sápuóperunni Hollyoakes, segir að hún hafi hitt Weinstein þegar hún lék í kvikmyndinni Krull árið 1982, en að árásin hafi átt sér stað nokkrum árum síðar.

Þá hefur ónafngreind kona greint Mail on Sunday frá því að Weinstein hafi nauðgað sér árið 1992 þegar hún starfaði á skrifstofum kyndmyndafyrirtækis hans í Vestur-London.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×