Innlent

Segir Miðflokkinn geta sýnt fram á það fyrir kosningar hvernig efna eigi kosningaloforðin

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Miðflokkurinn kynnti helstu stefnumál sín fyrir komandi alþingiskosningar nú síðdegis í dag. Formaður flokksins vill ráðast í víðtækar kerfisbreytingar komist flokkurinn til valda og segist geta sýnt fram á það, fyrir kosningar hvernig efna eigi kosningaloforðin.

Helstu stefnumál Miðflokksins fyrir komandi alþingiskosningar eru heildar endurskipulagning fjármálakerfisins, málefni atvinnulífsins og nýsköpunar, menntunar og vísinda. Endurskipulagning heilbrigðiskerfisins og réttindi eldri borgara. Að því við bættu ætlar flokkurinn að beita sér í byggðamálum og gera landið að einni heild á mörgum sviðum í stjórnkerfinu. 

Getur flokkurinn sýnt fram á það fyrir kosningar hvernig koma á þessum verkefnum í framkvæmd?

„Já, þessi verkefni sem ég kynnti í dag, var ekki tæmandi, en verkefnin sem ég kynnti í dag eiga það öll sammerkt að snúast um kerfisbreytingar. Til dæmis heilbrigðismálin, þetta snýst ekki bara um hversu miklir peningar fara inn í þau, þessa snýst um að kerfið virki sem best og að við fáum sem mest fyrir fjármagnið og varðandi endurskipulagningu fjármálakerfisins, að þá er alveg einstakt tækifæri til þess núna. Það tækifæri kemur ekki aftur. Og þá er kannski það besta við það að ríkisstjórnin skildi fara frá og að við fengum kosningar á þessum tíma þá gafst tækifæri til þess að fylgja því eftir,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Sigmundur áréttar á Miðflokkurinn sé róttækur umbótaflokkur sem sé tilbúinn til þess að fara nýjar leiðir... „Markmiðin okkar eru ófrávíkjanleg en leiðirnar, við getum skoðað þær ef aðrir eru með betri hugmyndir,“ segir Sigmundur.

Getur þú mátað þig við annan flokk til samstarfs?

„Ég ætla ekki að útiloka neinn fyrirfram. Ég er aðeins búinn að skoða hvað hinir flokkarnir hafa upp á að bjóða og margt af því er svona hæfilega óskýrt hjá þeim til þess að maður geti vonast til þess að lagi sig bara að okkur,“ segir Sigmundur.

Í nýjustu skoðanakönnun Félagsvísingastofnunnar mælist flokkurinn með 6,4% fylgi og lækkar um 3% frá því fyrir viku.

„Nokkurn veginn á sama tíma vorum við með frá 9,5 og upp í 10,7% hjá þremur fyrirtækjum. Félagsvísindastofnun skar sig aðeins úr en það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist hjá þeim,“ segir Sigmundur.

Á flokkurinn eftir að bæta frekar í á næstu tveimur vikum?

„Ég vona það. Við þurfum að hafa sæmilega sterkt umboð ef við ætlum að ná að koma þessum málum áleiðis í hugsanlegri stjórnarmyndun,“ segir Sigmundur. 

 

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×