Sport

Kaepernick fer í mál við eigendur liðanna í NFL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kaepernick fer á hnéð í þjóðsöngnum ásamt einum liðsfélaga sínum.
Kaepernick fer á hnéð í þjóðsöngnum ásamt einum liðsfélaga sínum. vísir/getty
Colin Kaepernick hefur farið í mál við eigendur liðanna í NFL-deildinni í Bandaríkjunum. Hann telur að það séu samantekin ráð þeirra að semja ekki við hann vegna mótmæla hans gegn kynþáttafordómum.

Hinn 29 ára gamli Kaepernick hefur verið án liðs síðan hann yfirgaf herbúðir San Francisco 49ers í mars.

Kaepernick vakti mikla athygli þegar hann stóð ekki á meðan bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leik í ágúst í fyrra. Með þessu vildi hann mótmæla því óréttlæti sem blökkumenn búa við í Bandaríkjunum.

Fjöldi leikmanna í NFL-deildinni, sem og annað íþróttafólk, hefur síðan fylgt fordæmi Kaepernicks. Það fór ekki vel í Donald Trump Bandaríkjaforseta sem sagði að leikmennirnir sýndu vanvirðingu með þessu uppátæki. Trump hvatti svo eigendur liðanna í NFL-deildinni til að reka þá leikmenn sem stóðu ekki á meðan þjóðsöngurinn var leikinn.

Um þarsíðustu helgi gekk Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, út af leik Indiana Colts og San Francisco að beiðni Trumps, eftir að nokkrir leikmenn neituðu að standa á meðan þjóðsöngnum stóð.

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×