Skoðun

Hvenær, af hverjum og á hvaða verði

Kári Stefánsson skrifar
Sigmundur Davíð, það er löngu orðið ljóst að þú áttir kröfur í íslensku bankana meðan þú varst að semja við kröfuhafana fyrir hönd þjóðarinnar. Þú varst beggja vegna borðsins í því máli sem er í sjálfu sér svik við þjóðina. Þess utan bjóstu að innherjaupplýsingum þegar kom að ákvörðunum um að halda kröfunum eða selja þær af því að þú fórst fyrir hópi sem ákvað að endingu hversu verðmætar þær yrðu. Það eru engar deilur um staðreyndir þessa máls. Þú hefur aldrei mótmælt þeim, einungis gefið í skyn að þessar staðreyndir skipti ekki máli af því að þú sért svo göfugur í allan hátt. Síðan er það spurningin um það hvenær og hvernig þú komst yfir kröfurnar og á hvaða verði.

Í Kastljósi þann 28. september svaraðirðu henni með eftirfarandi setningu:

„Allar þessar kröfur eru kröfur sem eru í eðli sínu eins og kröfur alls þess fólks sem átti peninga í bönkunum fyrir hrun.“

Og síðan í þættinum Í bítið á Bylgjunni þann 13. október þegar spurt var hvernig Wintris hefði eignast kröfu í Kaupþingi:

„Þetta hefur lengi legið fyrir að félagið eða þessi reikningur sem heitir þessu nafni átti inneignir í íslensku bönkunum og við fall þeirra eignaðist kröfu eins og allir þeir sem áttu peninga inn í bönkunum með einhverjum hætti þegar þeir féllu.“

Þetta eru ósannindi, Sigmundur Davíð, sem þú endurtekur með tveggja vikna millibili. Þeir sem áttu fé í bönkunum eignuðust ekki kröfu í bankana við fall þeirra og þetta vitum við öll sem áttum fé í þeim. Það leikur lítill vafi á því að þessar kröfur féllu ekki í fang þitt af himnum ofan og þú keyptir þær og lang líklegast að þú hafir gert það eftir að bankarnir féllu og í þeim tilgangi að hagnast á þeim.

Nú reikna ég með því að þú mótmælir þessu öllu sem staðleysu og þegar þú gerir það vona ég svo sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér. Í þessu máli væri gott fyrir mig og þjóðina alla að ég sé að fara með fleipur. Það væri mjög einfalt mál fyrir þig að sanna það vegna þess að vegur krafna í bönkum er vendilega skráður, hvenær þær verða til eða eru keyptar, af hverjum þær eru keyptar og á hvaða verði.

Þú skuldar þjóðinni almennt að veita henni aðgang að þeim skjölum sem skrá þetta og heimild til þess að sannreyna þau og þú skuldar þetta sérstaklega þeim sem einhverra hluta vegna hafa fyrirgefið þér fyrir að þegja yfir eignarhaldinu en vilja samt ekki kjósa mann sem segir þjóðinni ósatt.

 

Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×