Erlent

Tveir dómarar stöðva þriðja ferðabann Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Boðað ferðabann Trump hefur verið umdeilt á meðal Bandaríkjamanna.
Boðað ferðabann Trump hefur verið umdeilt á meðal Bandaríkjamanna. Vísir/AFP
Alríkisdómarar á Havaí og í Maryland hafa stöðvað nýtt ferðabann ríkisstjórnar Donalds Trump í Bandaríkjunum sem átti að taka gildi í dag. Annar þeirra vísaði til orða Trump sjálfs um að bannið beindist fyrst og fremst að múslimum.

Bannið sem átti að taka gildi í dag beindist að Sýrlandi, Líbíu, Íran, Jemen, Tsjad, Sómalíu, Norður-Kóreu og Venesúela. Dómari á Havaí stöðvaði gildistökuna í gær fyrir öll löndin nema þau tvö síðastnefndu, að því er segir í frétt Washington Post.

Taldi dómarinn að Trump hefði farið út fyrir valdsvið sitt samkvæmt innflytjendalögum. Bannið átti að útiloka þá borgara ríkjanna sem hefðu ekki „raunverulegt“ samband við Bandaríkin.

Dómarinn í Maryland taldi einnig að Trump hefði tekið sér vald sem hann hafi ekki að hluta til. Sá taldi að orð Trump í kosningabaráttunni sýndu fram á að hann ætlaði banninu að beinast gegn múslimum. Því stangaðist ferðabann hans á við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Dómsmálaráðuneyti Trump hefur þegar lýst því yfir að það muni áfrýja úrskurði dómarans á Havaí.

Fyrri tilraunir ríkisstjórnar Trump til að koma á ferðabanni hafa einnig verið stöðvaðar af dómstólum. Útgáfan sem nú var slegin niður tímabundið er sú þriðja sem Trump hefur lagt til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×