Lífið samstarf

Vilja að fólki sé hlýtt og líði vel með sig

Cintamani kynnir
Heiða í jakka sem hún hannaði til að nota á skíðum eða snjóbretti og er með öll nauðsynleg smáatriði fyrir fjallið.
Heiða í jakka sem hún hannaði til að nota á skíðum eða snjóbretti og er með öll nauðsynleg smáatriði fyrir fjallið. MYND/RUT SIGURÐARDÓTTIR
Kynning: Aðalheiður Birgisdóttir, aðalhönnuður hjá Cintamani, segir mikinn undirbúning að baki hverri einustu flík. Fötin eigi að vera flott, þægileg og hagnýt.

Aðalheiður Birgisdóttir, eða Heiða eins og hún er kölluð, er yfirhönnuður hjá Cintamani, íslensku fyrirtæki sem hannar útivistarfatnað sem er gerður til að standa af sér íslenskar veðuraðstæður og leggur mikla áherslu á gæði.

„Við erum með útvistarföt sem henta vel hvað sem þú ert að gera,“ segir Heiða. „Ef þú kaupir jakka áttu að geta nýtt hann í fjölbreytta útivist, ekki bara til að fara út að hjóla eða á skíði. Sumar flíkurnar okkar eru samt frekar hugsaðar til daglegra nota á götunni, á meðan aðrar eru meira hugsaðar til að koma að notum á fjöllum. En þetta blandast allt og við viljum að fólk geti nýtt fötin víða.“

Kom inn með nýja línu

Heiða hefur starfað sem yfirhönnuður hjá Cintamani í tvö ár og vinnur með litlu teymi til að hanna endanlega vöru.

„Þegar ég kom inn fyrir tveimur árum var ákveðið að hanna alveg nýja heildstæða línu, sem gæti staðið ein og sér í búðinni, og boðið upp á fjölbreyttar flíkur,“ segir Heiða. „Það er ekki gert á hverju ári því þegar maður er að vinna með svona vandaðar gæðavörur úr toppefnum fer mikill tími og peningar í að þróa hverja flík. Þess vegna eru línur ekki endurnýjaðar eins oft og gengur og gerist í annarri tísku. Við viljum líka vera með klassíska hönnun, svo fólk þurfi ekki að kaupa sér nýja úlpu á hverjum vetri og geti notað flíkurnar árum saman.“

Heiða stofnaði merkið Nikita í kringum árið 2000, sem framleiddi bæði götutísku og snjóbrettafatnað.

„Þannig að ég hef reynslu af hvoru tveggja. Ég hafði reynslu í svona tæknilegum brettafatnaði og var líka búin að gera götufatnað lengi,“ segir hún. „Þannig að það passaði ágætlega að tvinna það saman.“

Heiða segir að það sem er í búðunum núna sé blanda af þessari nýju línu og því sem var í búðunum fyrir. „Á þessum tíma vorum við pínu að endurhanna útlitið og svo vinnum við út frá þessu nýja útliti,“ segir hún. „Það sem kemur inn í búðina á næstu misserum á að falla inn í það og hugsunina sem var á bak við þessa línu.“

Lagskipting mikilvæg

„Ég vinn mjög mikið með lög og er að reyna að kenna fólki að klæða sig rétt,“ segir Heiða.

„Það er ekki nóg að vera í hlýrri úlpu ef þú ert svo bara í nælonbol næst þér. Þá skiptir engu máli hvað þú ert í dýrum og fínum jakka utan yfir. Við þurfum að passa þetta vel á Íslandi. Fyrst ertu til dæmis í ullarbolnum, svo kemur prima­loftjakki eða flíspeysa og síðan kemur skelin,“ segir Heiða.

„Ég hugsa mikið um að láta þessi lög vinna vel saman, bæði í útivist og dagsdaglega. Ef þú ert til dæmis í prima­loftjakka undir léttum jakka, þá er það eins og að vera í hlýrri úlpu. Línan er byggð upp þannig að þú getir blandað flíkum saman á margan mismunandi hátt og lagskipt eins og þú vilt.“

Drífa er vatnsheldur dúnjakki sem andar vel og er tilvalinn í alla útiveru.MYND/RUT SIGURÐARDÓTTIR

Íslenskir litir og áferð

Heiða segist fá mjög mikinn innblástur úr íslenskri náttúru. „Ég stunda mikla útivist og litirnir og áferðin í íslenskri náttúru eru aðalinnblásturinn í þessari línu,“ segir hún.

„Svo fylgist maður vel með útivistarbransanum til að vera með puttann á púlsinum þegar kemur að tæknilegum nýjungum.

Útlitið á fötunum er svo sambland af öllu sem maður skoðar og sér á hverjum degi,“ segir Heiða.

„Það er alltaf mikil hugsun og undirbúningsvinna á bak við hverja flík og hvernig hún virkar, það skiptir ekki bara máli hvernig úlpan lítur út. Það eru til dæmis allir með síma í dag og þá skiptir máli að hafa alltaf góðan vasa fyrir símann og að hann sé á stað sem hentar vel. Við viljum að allt sé á hreinu og þægilegt. Þetta snýst um að fötin séu þægileg en líti vel út í leiðinni, þannig að fólki líði vel með sjálft sig og sé um leið ótrúlega hlýtt.“

Heiða segir mikla vinnu á bak við val á efnum. „Þau eru misjöfn eftir því hvað hentar hverju sinni,“ segir hún.

„Fyrir föt sem eru hönnuð til að fara á fjöll þarf efni sem andar vel og er vatnshelt. En ef maður er að gera úlpu sem er meira til að nota á götunni vinnur maður með efni sem eru sterk en hafa kannski ekki sömu tæknilegu eiginleika. Því eru mismunandi efni í hverri einustu flík og svo erum við með fólk sem stundar mikla útivist sem prófar vöruna, þannig að við séum fullviss um að allt sé eins og það á að vera.“



Greinin er unnin í samvinnu með Cintamani, sem rekur meðal annars sex verslanir hér á landi. Nánar á cintamani.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×