Skoðun

Hver vill vera stórhuga?

Þórir Garðarsson skrifar
Fjölgun erlendra ferðamanna er helsta ástæða þess hve hratt íslenska þjóðarbúið náði sér á strik eftir bankahrunið. Íslenska ferðaþjónustan á allan heiðurinn af því að hafa lagt í fjárfestingar og annan vöxt til að taka á móti þessum góðu gestum.

Aftur á móti hafa stjórnvöld verið lömuð, embættismenn jafnt sem stjórnmálamenn. Litið er á ferðamennina sem vandamál fremur en grundvöll hagvaxtar. Meðan aðrar þjóðir öfunda okkur af straumi ferðamanna hingað undirbýr fjármálaráðherrann skattahækkun til að fæla þá í burtu.

Aðrar þjóðir taka vandræðalítið á móti margföldum fjölda þeirra ferðamanna sem koma hingað. Stjórnvöld þeirra byggja upp innviði og eiga samstarf við ferðaþjónustuna til að tryggja sem mestan ávinning. Þau vita sem er, að erlendir ferðamenn geta stækkað kökuna og skilað verulegum ávinningi ef rétt er að málum staðið.

Það skásta sem íslensk stjórnvöld hafa gert er að stofna Stjórnstöð ferðamála í samstarfi við ferðaþjónustuna. Þar hefur staðan verið greind og skýrslur unnar. Góðir hlutir hafa komið þar fram eins og stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, en hlutirnir gagna oft og tíðum allt of hægt fyrir sig.

Áhugavert verður að sjá í aðdraganda kosninga hvaða stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar ætla að sýna dirfsku og skilning á stöðu ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan - og þar með þjóðin öll - þarf á stórhuga stjórnmálamönnum að halda.

Höfundur er stjórnarformaður Gray Line og varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×