Körfubolti

Þjálfari Skallagrímskvenna fékk jafnlangt bann og Finnur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ricardo Gonzalez
Ricardo Gonzalez Mynd/Stöð 2 Sport
Richi Gonzalez og Finnur Freyr Stefánsson voru báðir dæmdir í eins leiks bann vegna háttsemi sinnar í Meistarakeppni KKÍ um síðustu helgi. Þeir fengu sömu refsingu þótt að Gonzalez hafi reynt að hafa afskipti af leiknum eftir að hann var rekinn út.  KKÍ segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KR, var rekinn út úr húsi þegar KR tapaði á móti Þór Þorlákshöfn í Meistarakeppni karla. Hann mun taka út bannið í leik KR og Njarðvík í fyrstu umferð Domino´s deildar karla í kvöld.

Richi Gonzalez, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Skallagrími, var rekinn út úr húsi í sínum fyrsta keppnisleik sem þjálfari liðsins þegar Skallagrímur tapaði fyrir Keflavík í Meistarakeppni kvenna.

Gonzalez hélt áfram að reyna að stýra liðinu eftir að hann var rekinn út en það þyngir þó ekkert refsingu hans hjá aga- og úrskurðarnefnd Körfuknattleikssambandsins.

Sjá einnig:Braut þjálfari Skallagríms reglur eftir að hann var rekinn út út húsi í gær? | Myndband

Það gefur þjálfurum einskonar grænt ljóst á það í framtíðinni að finna leiðir til að stýra liðum sínum þótt að það sé búið að reka þá út úr húsi því refsingin þyngist ekki við það.

Richi Gonzalez stýrði Skallagrímsliðinu í sigri á Njarðvík í fyrstu umferð Domino´s deildar kvenna í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gær en missir hinsvegar af fyrsta heimaleik tímabilsins.

Bannið tók gildi í dag og því missir Richi Gonzalez af leik Skallagríms og Snæfells í 2. umferð Domino´s deildar kvenna um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×