Skoðun

Ertu til í að vinna sex vikur á ári fyrir krónuna?

Benedikt Jóhannesson skrifar
Þjóðin og krónan hafa fylgst að í gegnum þykkt um þunnt. Krónuvinir telja hana öllum miðlum betri – sannkallaðan vin í raun. En hún er sjaldan vinur allra á sama tíma heldur sveiflast hún eins og strá í vindi. Allir gjaldmiðlar sveiflast innbyrðis, þó að víðast séu sveiflurnar miklu minni en hjá krónunni. Er hún þá verri en aðrar myntir? Svarið er já og skýringin felst í því að smæðarinnar vegna er vaxtakostnaður íslenskra heimila og fyrirtækja miklu hærri en í nágrannalöndum okkar. Það veldur því að ungt fólk á erfitt með að koma sér þaki yfir höfuðið.

Berum saman ástandið hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Meðal Íslendingurinn gæti tekið sér frí tæplega 40 daga á ári og verið jafn vel settur og nú, ef hér væru svipaðir vextir og þar. Þetta eru 5-6 vikur sem við vinnum aukalega vegna vaxtabyrðarinnar af krónunni. Með öðrum orðum gætum við lengt orlofið um helming með sama vaxtaumhverfi og annars staðar á Norðurlöndum.

Skattafrídagurinn er haldinn hátíðlegur á vorin af þeim sem horfa á hve stóran hluta af launum við borgum til samfélagsins. Við getum líka horft á krónufrídaginn. Miðað við núverandi vexti gætum við tekið okkur frí frá áramótum til 8. febrúar. Eftir það vinnum við fyrir okkur sjálf.

Frá því að Viðreisn komst í ríkisstjórn hafa vextir lækkað um 0,75 prósentustig. Þetta þýðir að við höfum létt af almenningi heilli viku í vaxtaþjónkun og fært krónufrídaginn fram sem því nemur. Með áframhaldandi ábyrgri hagstjórn, myntráði og gengisfestu getum við lækkað vexti enn meira. Hættum að vinna fyrir krónuna og vinnum fyrir okkur sjálf.

 

Höfundur er fjármálaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×