Innlent

Blæs til stofnfundar Miðflokksins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vonast til þess að sjá sem flesta á stofnfundi Miðflokksins á morgun.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vonast til þess að sjá sem flesta á stofnfundi Miðflokksins á morgun. Visir/Auðunn Níelsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, blæs til formlegs stofnfundar Miðflokksins í Rúgbrauðsgerðinni klukkan 16.00 á morgun.

„Já, ég held að margt af þessu væri til þess fallið að vekja athygli skulum við segja,“ segir Sigmundur Davíð þegar hann er spurður hvort hann sé með einhver „tromp upp í erminni.“

Sigmundur verður sá eini sem tekur til máls á stofnfundinum. „Ég mun tala um stöðuna í pólitíkinni, stofnun flokksins, hvað hafi verið að gerast í því og hvers sé að vænta og svo mun ég tala um stefnuna hjá okkur núna fyrir kosningar. Ég mun að vísu ekki fara nákvæmlega í útfærsluna því við verðum með sérstakan fund til þess að kynna kosningastefnuskrána en ég mun ræða um viðfangsefnin og hvernig við ætlum að nálgast þau.“

Sigmundur segir að meðal þeirra málefna sem Miðflokkurinn setur á oddinn séu málafni eldri borgara, endurskipulagning fjármálakerfisins, bygging nýs spítala og þá segist Sigmundur hafa góðar hugmyndir um það hvernig hægt sé að láta Ísland „virka sem eina heild.“

Á fundinum getur fólk skráð sig sem stofnfélaga Miðflokksins en Sigmundur segir að það sé þó engin skylda, öllum sé frjálst að koma til að hlusta á ræðuna.

Sigmundur segir að það gangi vel að raða á framboðslista. „Uppstillingarnefndin er búin að vera að vinna að því að raða fólki á lista og það er tilhlökkunarefni að kynna það.“

„Þetta er alveg ótrúlega skemmtileg kosningabarátta það sem af er. Það er dálítið margt að gerast samtímis þegar menn eru að setja saman nýjan flokk á nokkrum dögum. Nú er maður farinn að hafa yfirsýn yfir þetta og mér finnst þetta allt vera að smella saman þannig að mér finnst þetta mjög skemmtilegt,“ segir Sigmundur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×