Simmar allra flokka Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 30. september 2017 07:00 Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að nýr Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé nú þegar orðinn stærri en Framsóknarflokkurinn. Hvað sem segja má um Sigmund verður ekki af honum tekið að hann vekur athygli hvað sem hann gerir. Enginn stjórnmálamaður hefur í seinni tíð, sennilega frá tímum Davíðs Oddssonar, haft sama lag á að gefa tóninn í umræðunni. Því verður þó ekki haldið fram að Sigmundur Davíð sé fullkominn stjórnmálamaður. Þvert á móti – hann er bæði þrasgjarn og hörundsár. Vilji hans til að kljúfa Framsóknarflokkinn sýnir jafnframt karaktereinkenni einleikarans. Framsóknarflokkurinn, sem Sigmundur hefur sagt að sé sér svo kær, er í hans huga ekki stærri en persóna Sigmundar Davíðs. Eins og knattspyrnuþjálfarinn Alex Ferguson sagði einhvern tíma um allt annan mann, þá virðist Sigmundur geta efnt til slagsmála í tómu húsi. Það sem Sigmundur hefur hins vegar, og er sennilega ástæða þess persónufylgis sem hann þó nýtur, er pólitísk sýn. Hann setur fram stórar hugmyndir, færir fyrir þeim rök og beitir sér fyrir því að þær komist til framkvæmda. Nægir að nefna skuldaleiðréttingu heimilanna, sem margir töldu ómögulegt að framkvæma, harða afstöðu gagnvart kröfuhöfum bankanna og afnám gjaldeyrishafta. Allt flókin pólitísk viðfangsefni þar sem Sigmundur setti fram hugmynd og sá til þess að hún kæmist til framkvæmda – hvað sem fólki svo fannst um niðurstöðuna. Að því leyti er Sigmundur allt að því einstakur meðal íslenskra stjórnmálamanna. Því miður er alltof mörgum kollegum hans of tamt að gaspra eins og á sjálfstýringu í pólitísku tómarúmi. Þrasið er þrassins vegna, ekki til að finna lausnir. Nýlegt dæmi eru ásakanir Pírata um barnaníð í tengslum við samninga um dagskrá þingsins. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur, er eingöngu til þess fallinn að slá pólitískar keilur og þeim til vansa sem í hlut eiga. Sama tilfinning kom upp þegar hlustað var á Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á dögunum býsnast yfir meintri hentistefnu lækna í kjaramálum. Honum fannst ósamræmi í því að læknar létu nú ekkert í sér heyra vegna þess að laun þeirra væru með því besta sem gerist í alþjóðlegum samanburði, ólíkt kveinstöfunum fyrir örfáum misserum þegar krónan var í lægð. Brynjar minntist ekki á fílinn í herberginu – íslensku krónuna. Örmyntina sem sveiflast eins og lauf í vindi og veldur því að forráðamenn íslenskra fyrirtækja geta aldrei gert vitrænar áætlanir. Sama á við um lækna. Laun þeirra sveiflast í takt við tiktúrur krónunnar. Læknar bera ekki ábyrgð á sveiflunum. Ábyrgðin er Brynjars og félaga hans á þingi. Tillaga að einfaldri lausn á þessu væri upptaka evru eða annars gjaldeyris. Þingmaðurinn, sem vafalaust vill halda í krónuna, minntist hins vegar ekkert á það og reyndi ekki að færa rök fyrir því hvers vegna krónan væri ákjósanlegur gjaldmiðill. Þras, þrassins vegna. Engar lausnir. Kannski væri betra fyrir okkur ef það væru Sigmundar í öllum flokkum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Kosningar 2017 Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að nýr Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé nú þegar orðinn stærri en Framsóknarflokkurinn. Hvað sem segja má um Sigmund verður ekki af honum tekið að hann vekur athygli hvað sem hann gerir. Enginn stjórnmálamaður hefur í seinni tíð, sennilega frá tímum Davíðs Oddssonar, haft sama lag á að gefa tóninn í umræðunni. Því verður þó ekki haldið fram að Sigmundur Davíð sé fullkominn stjórnmálamaður. Þvert á móti – hann er bæði þrasgjarn og hörundsár. Vilji hans til að kljúfa Framsóknarflokkinn sýnir jafnframt karaktereinkenni einleikarans. Framsóknarflokkurinn, sem Sigmundur hefur sagt að sé sér svo kær, er í hans huga ekki stærri en persóna Sigmundar Davíðs. Eins og knattspyrnuþjálfarinn Alex Ferguson sagði einhvern tíma um allt annan mann, þá virðist Sigmundur geta efnt til slagsmála í tómu húsi. Það sem Sigmundur hefur hins vegar, og er sennilega ástæða þess persónufylgis sem hann þó nýtur, er pólitísk sýn. Hann setur fram stórar hugmyndir, færir fyrir þeim rök og beitir sér fyrir því að þær komist til framkvæmda. Nægir að nefna skuldaleiðréttingu heimilanna, sem margir töldu ómögulegt að framkvæma, harða afstöðu gagnvart kröfuhöfum bankanna og afnám gjaldeyrishafta. Allt flókin pólitísk viðfangsefni þar sem Sigmundur setti fram hugmynd og sá til þess að hún kæmist til framkvæmda – hvað sem fólki svo fannst um niðurstöðuna. Að því leyti er Sigmundur allt að því einstakur meðal íslenskra stjórnmálamanna. Því miður er alltof mörgum kollegum hans of tamt að gaspra eins og á sjálfstýringu í pólitísku tómarúmi. Þrasið er þrassins vegna, ekki til að finna lausnir. Nýlegt dæmi eru ásakanir Pírata um barnaníð í tengslum við samninga um dagskrá þingsins. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur, er eingöngu til þess fallinn að slá pólitískar keilur og þeim til vansa sem í hlut eiga. Sama tilfinning kom upp þegar hlustað var á Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á dögunum býsnast yfir meintri hentistefnu lækna í kjaramálum. Honum fannst ósamræmi í því að læknar létu nú ekkert í sér heyra vegna þess að laun þeirra væru með því besta sem gerist í alþjóðlegum samanburði, ólíkt kveinstöfunum fyrir örfáum misserum þegar krónan var í lægð. Brynjar minntist ekki á fílinn í herberginu – íslensku krónuna. Örmyntina sem sveiflast eins og lauf í vindi og veldur því að forráðamenn íslenskra fyrirtækja geta aldrei gert vitrænar áætlanir. Sama á við um lækna. Laun þeirra sveiflast í takt við tiktúrur krónunnar. Læknar bera ekki ábyrgð á sveiflunum. Ábyrgðin er Brynjars og félaga hans á þingi. Tillaga að einfaldri lausn á þessu væri upptaka evru eða annars gjaldeyris. Þingmaðurinn, sem vafalaust vill halda í krónuna, minntist hins vegar ekkert á það og reyndi ekki að færa rök fyrir því hvers vegna krónan væri ákjósanlegur gjaldmiðill. Þras, þrassins vegna. Engar lausnir. Kannski væri betra fyrir okkur ef það væru Sigmundar í öllum flokkum.