Körfubolti

Koma Hester á Krókinn tafðist vegna fellibylsins Irmu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Antonio Hester mætir aftur til leiks í næstu viku.
Antonio Hester mætir aftur til leiks í næstu viku. visir/anton
Lið Tindatóls í Domino´s-deild karla í körfubolta fær ekki Bandaríkjamanninn Antonio Hester til liðs við sig fyrr en á þriðjudaginn í næstu viku, aðeins níu dögum fyrir fyrsta leik liðsins á móti ÍR.

Það er þó ansi góð ástæða fyrir seinkun Hesters en hann býr í Flórídaríki í Bandaríkjunum og varð því fyrir barðinu á fellibylnum Irmu sem lék fólk vestanhafs ansi grátt.

Fleiri milljónir manna glímdu við rafmagnsleysi vegna Irmu sem lagði allt er hún snerti í rúst en rafmagnslaust var í Miami í rúma viku.

Ofan á allt saman var Hester með nýfædd barn í miðjum storminum og hefur því verið nóg að gera hjá honum heima fyrir að koma öllu í stand áður en hann kemst aftur til Íslands.

„Það er búin að vera algjör ringulreið þarna. Það var rafmagnslaust í rúma viku og það er bara nýbúið að opna opinberar stofnanir þarna aftur upp á að fá pappírana í gegn. Það er samt búið að panta flugið og hann lendir þann 26. í næstu viku,“ segir Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, við Vísi.

Hester kom eins og stormsveipur inn í lið Tindastóls á síðustu leiktíð og hann hefur ekki setið aðgerðarlaus í sumar. Eins og greint var frá í ágúst hélt Hester sér í formi í sumar meðal annars með því að spila við NBA-ofurstjörnurnar James Harden og John Wall.

Jester var mjög öflugur með Tindastól í Domino´s-deildinni síðasta vetur þar sem hann skoraði 23,4 stig og tók 10,8 fráköst að meðaltali í leik.

„Við vitum alveg hvað við erum að fá þannig við erum ekkert stressaðir,“ segir Stefán Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×