Erlent

Fleiri lönd bætast á ferðabannslista Bandaríkjanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hvíta húsið sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi.
Hvíta húsið sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi. Vísir/Getty
Löndunum sem hið svokallaða ferðabann Bandaríkjanna tekur til hefur verið fjölgað. Frá þessu var greint í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í nótt.

Í fyrri útgáfu bannsins var fólki frá Íran, Líbíu, Sýrlandi, Sómalíu, og Jemen meinaður aðgangur að Bandaríkjunum nema það hefði „náin tengsl“ við bandaríska ríkisborgara. Samkvæmt tilkynningunni í nótt hefur Norður-Kóreu, Venesúela og Tsjad verið bætt á listann.

Bannið er þó breytilegt eftir löndum og verður komið á í skrefum. Þannig er öllum Norður-Kóreubúum bannað að koma til Bandaríkjanna en námsmenn frá Íran er hleypt inn, að undangengnum ítarlegum prófunum.

Hvíta húsið segir að hið nýja bann „sé mikilvægt skref í átt að innflytjendastefnu sem stendur vörð um öryggi Bandaríkjamanna á tímum hættulegra hryðjuverka og alþjóðlegra glæpa.“

Haft er eftir Bandaríkjaforseta í yfirlýsingunni að ekki sé hægt að „endurtaka fyrri mistök“ í málaflokknum sem hafi bakað Bandaríkjunum áður óþekkt vandræði. „Helst skylda mín er að tryggja öryggi bandarísku þjóðarinnar og með nýja ferðabanninu er ég að uppfylla þá skuldbindingu,“ segir Donald Trump í tilkynningunni.

Fyrra ferðabann hefur verið í gildi undanfarna þrjá mánuði en því var komið á, eftir þref fyrir bandarískum dómstólum, með forsetaúrskurði. Hin svokölluðu nánu tengsl sem útlendingar frá fyrrgreindum bannlöndum þurftu að hafa við Bandaríkjamenn voru ef fólk á foreldra, maka, börn, tengdabörn eða systkini í Bandaríkjunum. Önnur fjölskyldutengsl uppfylla ekki skilyrði ferðabannsins.


Tengdar fréttir

Tíststormur Trump gæti skaðað „ferðabann“ forsetans

Donald Trump Bandaríkjaforseti gæti hafa komið sér í klandur með orðavaðli sínum um ferðabann gegn múslímaríkjum á Twitter í morgun. Tístin gætu verið notuð gegn stjórnvöldum þegar tekist verður á um bannið fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna.

Frekari útvötnun ferðabanns Trump fyrir Hæstarétt

Það kemur til kasta Hæstaréttar Bandaríkjanna að ákveða hvort að stjórn Donalds Trump hafi farið eftir lögum þegar hún ákvað hverjir skyldu undanþegnir ferðabanni hans og hverjir ekki.

Ferðabann Trump gegn múslimalöndum tekur gildi

Borgarar sex landa þar sem meirihluti íbúa er múslimar geta aðeins komið til Bandaríkjanna ef þeir hafa "náin tengsl“ við landið frá og með miðnætti. Þá tekur ferðabann Donalds Trump gildi að hluta til eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna aflétti lögbanni á hluta þess á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×