Fótbolti

Stjóri Valencia meiddi sig við að fagna sigurmarki sinna manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcelino fagnar í gær.
Marcelino fagnar í gær. Vísir/EPA
Marcelino García Toral, stjóri spænska liðsins Valencia, leyndi ekki gleði sinni þegar lið hans tryggði sér 3-2 sigur á Real Sociedad í gær.

Simone Zaza skoraði sigurmark Valencia á 85. mínútu en liðið var þá að komast yfir í þriðja sinn í leiknum.

Stjóri Valencia tók vel þátt í fagnaðarlátunum en það varð honum dýrkeypt því hann meiddi sig við að fagna sigurmarkinu.

Hinn 52 ára gamli Marcelino, sem á sínum tíma spilaði yfir 200 leiki með spænskum liðum, tognaði aftan í læri í fagnaðarlátunum.

Hann varð á sínum tíma að setja fótboltaskóna upp á hillu aðeins 28 ára gamall vegna meiðsla.

„Ég er orðinn aðeins eldri en það eru bara vissar kringumstæður þar sem ég missi stjórn á sjálfum mér,“ grínaðist Marcelino með í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn.

„Ég er dálítið meiddur eftir þetta en ég vel frekar vera meiddur sjálfur en að leikmaður minn sé meiddur. Ég ræð alveg við það. Ég mun samt reyna að forðast svona aðstæður í framtíðinni,“ sagði Marcelino.

Þetta er fyrsta tímabil Marcelino með Valenica en hann þjálfaði áður Villarreal í þrjár leiktíðir. Valencia hefur ekki enn tapað leik á tímabilinu en er með 3 sigra og 3 jafntefli í fjórða sæti deildarinnar.

Fyrir þá sem skilja spænsku er hægt að horfa og hlusta á blaðamannafundinn hans hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×