Viðskipti innlent

Vill kyrrsetningu á eignum Magnúsar

Haraldur Guðmundsson skrifar
Magnús Garðarsson er stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon í Helguvík.
Magnús Garðarsson er stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon í Helguvík. vísir/eyþór
Stjórn United Silicon hefur óskað eftir kyrrsetningu hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu á eignum Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra kísilversins, hér á landi.

Fyrirtækið, sem nú er í greiðslustöðvun, vill tryggingu fyrir bótakröfu sem það hefur gert á hendur Magnúsi í kæru til embættis héraðssaksóknara. Ekki fengust upplýsingar um hvaða eignir Magnúsar hér á landi um er að ræða eða hvort embættið hafi tekið efnislega afstöðu til kyrrsetningarbeiðninnar.

Fjölmiðlar vöktu athygli á því um miðjan þennan mánuð að einbýlishús Magnúsar í Kópavogi var auglýst til sölu. Húsið er 304 fermetrar að stærð og var ásett verð 150 milljónir króna. Fasteignaauglýsingin hefur nú verið tekin úr birtingu.

United Silicon sendi fyrr í mánuðinum kæru til embættis héraðssaksóknara vegna gruns um refsiverða háttsemi forstjórans fyrrverandi. Kæran byggir á grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 eða þegar framkvæmdir við kísilverið í Helguvík hófust. Samkvæmt tilkynningu United Silicon þann 11. september eru upplýsingar sem þá komu fram afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins. Arion banki og fimm lífeyrissjóðir hafa síðan þá tekið yfir 98 prósenta hlut í félaginu og eru Magnús og aðrir stofnendur þess farnir út úr hluthafahópnum og hafa misst stjórnarsæti sín.

Stjórnin telur, líkt og komið hefur fram, að Magnús hafi dregið sér um hálfan milljarð króna með fölsuðum og tilhæfulausum reikningum útgefnum af ítalska fyrirtækinu Tenova Pyromet sem bæði hannaði og seldi kísilverinu ljósbogaofn.

Magnús hefur mótmælt þeim ásökunum sem fram hafa komið á hendur honum í tilkynningum til fjölmiðla. Þær séu rangar og tilhæfulausar og hluti af „skítugum slag“ um eignarhald United Silicon. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Magnús talinn hafa svikið áfram eftir starfslok

Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon, hefur verið kærður vegna meints skjalafals og fjárdráttar. Talinn hafa falsað reikninga frá fyrirtæki á Ítalíu.

Kísilkóngurinn selur 450 fermetra einbýlishús á 150 milljónir

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi hins umdeilda fyrirtækis United Silicon, er grunaður um hafa dregið sér um hálfan milljarð með fölsuðum reikningum gefnum út á búnaðarframleiðandann Tenova Pyromet á Ítalíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×