Innlent

Guðfinna Jóhanna dregur framboð sitt til baka

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fyrir viku síðan vildi Guðfinna inn á þing, en sú er ekki raunin lengur.
Fyrir viku síðan vildi Guðfinna inn á þing, en sú er ekki raunin lengur.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, hefur ákveðið að draga til baka framboð sitt um að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi þingkosningum.

Hún tilkynnti þetta á Facebook síðu sinni nú fyrir skömmu. Þar segist hún hafa viljað trúað því að flokkurinn myndi standa saman sem einn maður og ganga samheldinn til kosninga.

„Því miður er það ekki raunin. Ég hef því ákveðið að draga framboð mitt til baka,“ skrifar Guðfinna, en einungis vika er síðan hún tilkynnti að hún hygðist sækjast eftir oddvitasætinu í borginni.

Töluverðar sviptingar hafa verið innan Framsóknarflokksins síðan þá. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, tilkynnti á sunnudag að hann væri hættur í flokknum og að hann hyggist stofna nýjan flokk.

Ýmsir nafntogaðir Framsóknarmenn hafa síðan þá tilkynnt úrsögn sína úr flokknum og hafa nokkrir lýst yfir stuðningi við Sigmund Davíð. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi hefur til dæmis ekki útilokað að hún bjóði sig fram fyrir nýjan flokk Sigmundar, en hún sagði sig úr Framsóknarflokknum fyrir um mánuði síðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×