Íslenski boltinn

Rakel: Akkúrat núna er ég ekkert voðalega ánægð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rakel fagnar með liðsfélögum sínum.
Rakel fagnar með liðsfélögum sínum. vísir/anton
Rakel Hönnudóttir skoraði eitt marka Breiðabliks í 4-0 sigrinum á Grindavík í dag. Sigurinn dugði þó Blikum ekki til að verða Íslandsmeistari því á sama tíma vann Þór/KA 2-0 sigur á FH og tryggði sér titilinn.

„Því miður. Það var alveg vitað fyrir leikinn að við gátum ekki gert meira en að vinna. Þetta var gott dagsverk hjá okkur en ekki nóg,“ sagði Rakel í samtali við Vísi eftir leik.

Ekki er langt síðan munaði átta stigum á Þór/KA og Breiðabliki. Það dró saman með þeim í lokaumferðunum og á endanum skildu aðeins tvö stig þau að.

„Við gerðum mistök á fyrri hluta tímabilsins og þau reyndust dýrkeypt,“ sagði Rakel.

Blikar enduðu í 2. sæti Pepsi-deildarinnar og tókst ekki að verja bikarmeistaratitilinn. Flokkast þetta undir vonbrigðatímabil í Kópavoginum?

„Það er flottur árangur að lenda í 2. sæti. En akkúrat núna er ég ekkert voðalega ánægð,“ sagði Rakel sem varð að horfa á eftir Íslandsmeistaratitlinum í hendur sinna gömlu félaga fyrir norðan.

„Ég hef séð þetta áður,“ sagði Rakel og vísaði til þess þegar Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012.


Tengdar fréttir

Donni: Ólýsanleg tilfinning

Íslandsmeistaratitillinn fór á loft á Akureyri eftir 2-0 sigur Þórs/KA á FH í dag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×