Viðskipti innlent

Grunur um refsiverða háttsemi fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Magnús Ólafur Garðarsson er stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Ólafur Garðarsson er stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon. Vísir/Eyþór
Stjórn United Silicon hefur í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun sent kæru til Embættis héraðssaksóknara vegna gruns refsiverða háttsemi fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, en Magnús Ólafur Garðarsson er stofnandi fyrirtækisins og fyrrverandi forstjóri þess.

Kæran byggir á grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 og er lögð fram í samráði við aðra hagsmunaaðila.

Samkvæmt tilkynningunni eru upplýsingarnar sem nú koma fram afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins sem leidd hefur verið af nýrri stjórn sem tók við í febrúar en hinn grunaði hefur enga aðkomu haft að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars. Stjórn félagsins mun vinna með yfirvöldum að rannsókn málsins svo að upplýsa megi það sem fyrst. Þá verður farið yfir málið með starfsmönnum United Silicon og þeim greint frá stöðunni.

Umhverfisstofnun ákvað að stöðva starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík föstudaginn 1. september. Vísaði hún til þess að ríflega þúsund kvartanir hafi borist frá íbúum Reykjanesbæjar vegna mengunar. Frávik frá starfsleyfi verksmiðjunnar hafi verið alvarleg.

Ofsaakstur á Reykjanesbraut

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Magnús Ólafur kemst í kast við lögin en hann var handtekinn í desember síðastliðnum vegna hraðaaksturs á Reykjanesbraut sem endaði með því að hann keyrði utan í annan bíl. Lögreglan gerði Teslu bifreið Magnúsar upptæka í kjölfar atviksins.

Gögn í málinu bentu til þess að bílnum hafi verið ekið á allt að tæplega 183 kílómetra hraða um fimmtán sekúndum áður en slysið varð, en 90 kílómetra hámarkshraði er á Reykjanesbrautinni.

Í ljós kom að Magnús er með tíu hraðakstursmál í kerfinu á Íslandi og eitt í Danmörku. Um hafi verið að ræða „gróf“ hraðakstursbrot og að sjö þeirra séu frá því í fyrra.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×