Erlent

Hvíta húsið vill að sjónvarpskona verði rekin fyrir ummæli um Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Hill (2. t.v.) ásamt félögum sínum í SportsCenter á ESPN.
Hill (2. t.v.) ásamt félögum sínum í SportsCenter á ESPN. Vísir/AFP
Blaðafulltrúi Hvíta hússins segist telja að ummæli þáttastjórnanda íþróttarásarinnar ESPN um að Donald Trump forseti sé „hvítur þjóðernissinni“ séu þess eðlis að hann ætti að missa vinnuna.

„Donald Trump er hvítur þjóðernissinni sem hefur umkringt sig að miklu leyti með öðrum hvítum þjóðernissinnum,“ tísti Jemele Hill, stjórnandi þáttarinns SportsCenter á ESPN, á mánudagskvöld.

Tístið var borið undir Söruh Huckabee-Sanders, blaðafulltrúa Hvíta hússins, í gær og hvort að Trump vissi af því, að því er segir í frétt Washington Post.

„Ég er ekki viss um að hann viti af því en ég tel að þetta sé eitt af yfirgengilegustu ummælum sem nokkur gæti látið falla og ég tel sannarlega að þetta sé ástæða til brottreksturs hjá ESPN,“ svaraði Huckabee Sanders.

Hill baðst síðar afsökunar á að ummælin hefðu haft áhrif á ESPN. Stöðin sagði í yfirlýsingu að skoðanir Hill væru hennar eigin og endurspegluðu ekki afstöðu stjórnenda stöðvarinnar. Hún hafi sjálf viðurkennt að ummæli hennar hafi verið óviðeigandi.

Trump hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir tregðu sína til að fordæma hvíta þjóðernissinna, nýnasista og aðra hægriöfgamenn. Eftir mannskæð mótmæli hóps hvíta þjóðernissinna í Charlottesville í sumar kenndi sagði hann andstæðinga öfgamannanna bera eins mikla ábyrgð á ofbeldinu þar.

Eftir ummæli Huckabee Sanders hefur verið rifjað upp á Trump kallaði Barack Obama, fyrrverandi forseta, „rasista“ í tísti þegar hann var stjarna raunveruleikaþáttarins Lærlingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×