Innlent

Viðreisn vill kosningar sem fyrst

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá fundi þingflokks Viðreisnar í vor þegar ákveðið var hvaða þrír þingmenn flokksins yrðu ráðherrar.
Frá fundi þingflokks Viðreisnar í vor þegar ákveðið var hvaða þrír þingmenn flokksins yrðu ráðherrar. Visir/Eyþór
Þingflokkur Viðreisnar kallar eftir því að kosið verði sem fyrst eftir að Björt framtíð ákvað í gærkvöldi að slíta stjórnarsamstarfinu vegna „alvarlegs trúnaðarbrests.“

Þingflokkurinn fundaði í Austurstræti frá klukkan rúmlega 1 eftir miðnætti til um klukkan 4. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar fundarins þar sem segir meðal annars að það sé skylda stjórnvalda gagnvart almenningi að vinnubrögð standist stranga skoðun, í málum er varða uppreist æru og alvarlega glæpi eins og þá sem rætt var um í gær.

„Fréttir gærdagsins af málsmeðferð um uppreist æru hafa vakið sterk viðbrögð innan raða Viðreisnar, líkt og í samfélaginu öllu. Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varðar. Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta,“ segir í tilkynningu þingflokksins.

Staðan sem Viðreisn vísar til og Björt framtíð segir trúnaðarbrest snýr að því að Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, hafi leynt því fyrir samráðherrum og samstarfsflokkum í ríkisstjórn að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, hefði verið einn umsagnaraðila fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmds kynferðisbrotamanns, þegar hann sótti um uppreist æru í fyrra. Sigríður greindi Bjarna frá umsögninni um mánuði eftir að ráðuneytið hafði gefið það út að engar upplýsingar myndu fást um meðmælendur þeirra sem hlotið hafa uppreist æru.

Benedikt Jóhannesson ræddi málin í Bítinu á Bylgjunni í morgun.


Tengdar fréttir

Björt framtíð slítur ríkisstjórnarsamstarfinu

Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti á fundi sínum í kvöld að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Kosningin fór fram rafrænt og lauk á tólfta tímanum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×